Hjartavernd finnur gen sem stjórnar blóðþrýstingi

Hjartavernd

Tímmótarannsókn

Vísindamenn Hjartaverndar hafa í samvinnu við alþjóðlegt teymi vísindamanna fundið gen sem stjórna blóðþrýstingi og hafa áhrif á háþrýsting.

 

HjartaverndVísindamenn Hjartaverndar hafa í samvinnu við evrópska og bandaríska vísindamenn uppgötvað gen sem hafa áhrif á blóðþrýsting og háþrýsting. Niðurstöðurnar birtust í dag í hinu virta alþjóðlega vísindatímariti Nature Genetics.

 

Uppgötvanirnar byggjast m.a. á niðurstöðum úr Öldrunarrannsókn Hjartaverndar og langvarandi söfnun upplýsinga í Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar. Þátttaka umtalsverðs fjölda einstaklinga í þessum rannsóknunum sannar enn einu sinni gildi sitt með þessum merku niðurstöðum á tilurð og þróun sjúkdóma. Hingað til hefur gengið illa að finna gen sem hafa áhrif á blóðþrýsting þrátt fyrir umfangsmiklar rannsóknir. Þessi uppgötvun er því tímamótauppgötvun.

 

Einnig opna þessar uppgötvanir leið fyrir frekari rannsóknir á háþrýsting og hugsanlega nýjum meðferðum við sjúkdómnum.  Þótt verulegur ávinningur hafi náðst í að lækka blóðþrýsting hjá íslensku þjóðinni þá er alltaf umtalsverður hópur einstaklinga sem þarfnast lyfjameðferðar.  Talið er að allt að einn af hverjum þremur einstaklingum á miðjum aldri hafi háþrýsting og tveir af hverjum þremur þarfnast meðferðar við háþrýstingi  þegar einstaklingar eru komnir yfir 65 ára aldur samkvæmt rannsóknum Hjartaverndar.

 

Háþrýstingur sem varað hefur í nokkur ár er ein helsta ástæða heilablóðfalla og er verulegur áhættuþáttur fyrir þróun kransæðasjúkdóms og hjartaáfalla. Að sögn prófessors Vilmundar Guðnasonar forstöðulæknis Hjartaverndar sem leiddi rannsóknina af hálfu Hjartaverndar þá er meðhöndlun háþrýstings afar mikilvæg til þess að koma í veg fyrir áföll sem rýra lífsgæði einstaklinga og geta jafnvel leitt til dauða.

 

Kostnaður heila- og hjartaáfalla er einnig verulegur fyrir þjóðfélagið og er því sérhver ný leið sem finnst til að glíma við þennan vágest afar mikilvæg.

 

Frétt af vef Hjartaverndar

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *