Hringur fyrir hjartað

Hjartans mál Önundur og Jesper með hjartalokuhringinn góða.

MÁLEFNI hjartans taka á sig ýmsar og misrómantískar myndir. Önundur Jónasson, nýútskrifaður véltæknifræðingur, fékk dönsk verkfræðiverðlaun fyrir sitt hjartans mál, hönnun svokallaðs mitralhrings sem er settur í kringum hjartalokur til að styrkja hjartavefinn.

 

Hjartans mál Önundur og Jesper með hjartalokuhringinn góða.Frá svínsloku til plasthrings

Verkefnið var lokaverkefni Önundar og dansks samnemanda, Jespers Lønne, í véltæknifræði frá Verkfræðiskóla Árósa í samvinnu við Skejby-sjúkrahúsið sem er eitt af stærstu sjúkrahúsum Evrópu.

 

»Þegar fólk fær blóðtappa deyr oft hluti af hjartavöðvanum og þarfnast lagfæringar. Áður fólst lækningin í að græða svínslokur í hjartað, síðar var svínunum þyrmt og járnlokur notaðar í staðinn. Nýrri tækni er að nota hring til að styrkja hjartavefinn. Þeir hafa ekki reynst nógu vel vegna þess að efnið í þeim, nitinol, hefur viljað brotna. Verkefnið fólst í að vinna þessa hringi í annað efni, polypropylen, sem er plastefni. Við létum framleiða fyrir okkur tvær prufutegundir af hringjum sem lofa góðu.« Raunar lofar verkefnið það góðu að Önundur og Jesper hlutu hæstu einkunn frá skólanum og verðlaun Verkfræðiþjónustu Danmerkur – DIS – sem er vel þekkt innan verkfræðinnar.

 

Nokkra furðu vekur að véltæknifræðingur velji sér verkefni sem er nær læknisfræði heldur en véltæknifræði. »Margir hafa undrast þetta en líkaminn er eins konar líkamsvél,« segir Önundur.

Fær ekki einkaleyfið

Önundur er vanur að taka u-beygjur í lífinu. Upphaflega lærði hann pípulagnir, tók síðan tæknistúdentspróf og fór í véltæknifræði. Í vetur hyggur hann á meistaranám í orkufræðum á vegum Reyst sem er samstarfsverkefni, Orkuveitu Reykjavíkur, HÍ og HR. »Það var hreinlega orðið alltof dýrt að vera námsmaður á íslenskum námslánum með þrjú börn á framfæri í Danmörku. Annars hef ég mikinn áhuga á orkumálum og sérstaða Íslands er mikil þar.

 

Aðspurður hvort hann fái ekki einkaleyfi á hringnum góða segir hann það ekki vera. »Skejby-sjúkrahúsið á einkaleyfið en ég fæ kannski nafnið mitt greypt í hringinn,« segir Önundur og hlær.
Morgunbláðið fimmtudaginn 9. júlí 2009

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *