Á stefnumóti með þjóðinni

Hjartaheill voru stofnuð fyrir rúmlega 25 árum, nánar til tekið 8. október 1983 og voru stofnfélagar 230. Nú eru félagsmenn Hjartaheilla 3600.  Allt frá stofnun hafa samtökin beitt sér fyrir fræðslu og forvörnum varðandi hjartasjúkdóma, veitt aðstoð og ráðgjöf og staðið fyrir margvíslegum umbótum í þágu hjartasjúklinga.

 

Á afmælisárinu var ákveðið að ráðast í stórt verkefni sem myndi skila sér til þjóðarinnar með miklum krafti.  Á fundum með sérfræðingum á hjartadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss kom fram að til staðar voru tvö hjartaþræðingartæki með öllum búnaði. Bæði voru tækin komin til ára sinna og það eldra meira en 10 ára gamalt.  Slíkur háþróaður tækjabúnaður úreldist fljótt og því brýn þörf orðin á endurnýjun auk þess sem það er mikið öryggisatriði.  Viðmiðið er að tækin verða orðin úreld við 7 ára aldur.

 

Á biðlistum eftir hjartaþræðingum og hjartaskurðaðgerðum voru  nær 300 manns og því augljóst hversu alvarlegt ástand mundi skapast ef annað þessara tækja yrði ónothæft. 
Hjartaheill í samráði við sérfræðinga LSH taldi mjög nauðsynlegt að leggja áherslu á það og tryggja að hægt verði að fjárfesta í þriðja hjartaþræðingatækinu. Á sama tíma yrði öll aðstaða hjartadeildarinnar stórbætt með aðkomu og annað sem snýr að sjúklingum við komu á deildina.

 

Það er staðreynd að á fjárlögum er yfirleitt of lítið fé ætlað til tækjakaupa í íslenska  heilbrigðiskerfinu. Einstaklingar og samtök þeirra hafa oft brugðist við því með margvíslegum stuðningi ekki síst með fjárframlögum til tækjakaupa og eiga því ríkan þátt í því að íslenska heilbrigðiskerfið er jafn gott og raun ber vitni. Að þessu sinni taldi því stjórn Hjartaheilla það þjóðráð að leggja fram krafta sína og styrk og efna til þjóðarátaks og safna fyrir þriðja hjartaþræðingatækinu ásamt fylgibúnaði á afmælisárinu.

 

Kostnaðaráætlun lá fyrir og ákveðið var að söfnun meðal þjóðarinnar færi fram rétt fyrir bankafallið.  Þegar sú holskefla reið yfir þjóðina var ákveðið að fresta söfnuninni fram yfir nýárið.  Nýtt landslag blasti við okkur á nýju ári.  Vegna gengismunar hafði allur kostnaður vegna tækjakaupa hækkað allt að því um helming. Þrátt fyrir stöðuna var ákveðið að fara fram
með verkefnið og tryggja tækjakaupin og þannig bæta aðstöðu hjartadeildarinnar.

 

Ákveðið var að safna með ljósvakamiðli, þá þannig að útbúinn yrði skemmtidagskrá þar sem skemmtikraftar kæmu fram og samhliða yrði verkefnið kynnt með það í huga að fyrirtæki og einstaklingar kæmu með fjárframlög til styrktar tækjakaupunum.

 

Fyrir valinu varð Stöð 2 og var samstarfið mjög gott allan tímann og allur kostnaður sem myndaðist var án endurgjalds gagnvart Stöð 2 og er það mjög þakkarvert.  Samið var síðan við Sagafilm um skipulagningu og framkvæmd útsendingar á landssöfnun Hjartaheilla sem var haldinn í stúdíó Sagafilm þann 28. mars, s.l.

 

Áður en til söfnunarinnar kom hjá Stöð 2 hafði forsöfnun átt sér stað af hálfu Hjartaheilla og  var þá búið að afhenda hjartadeild LSH 10 milljónir. Á Stöð 2 söfnuðust hátt í 40 milljónir sem verður að teljast mjög góður árangur miðað við stöðu mála í þjóðfélaginu.

Vinnubrögð bæði hjá Stöð 2 og Sagafilm voru framkvæmd af mikilli fagmennsku og góðu viðmóti.

Þema söfnunarinnar að ráði Sagafilm var rómantíkin og hjartað.  Yfirbragð söfnunarinnar var mjög áferðarfallegt. Ákveðið var að tryggja það að fróðleikur um hjartasjúkdóma kæmist til skila í dagskránni og að almenningur yrði einhverju nær.

 

Áður en kom að sjálfum deginum þegar aðalsöfnunin fór fram voru seld merki á vegum Hjartaheilla og rekinn mikil áróður í fjölmiðlum, þ.e. bæði prentmiðlum og ljósvakamiðlum.

Forseti Íslands var verndari söfnunarinnar og mætti hann í opinni dagskrá á Stöð 2 á söfnunardeginum.

 

Einlægar þakkir.
Hjartaheill vill nota tækifærið og þakka fjölmörgum aðilum sem komu að verkefninu og er það ærið langur listi og verður því ekki tekið út eitt nafn hér en hugur og hjarta okkar sem stóðu í eldlínunni eru hjá ykkur.

 

Þannig var stefnumótið sem við áttum með þjóðinni þessa kvöldstund þ.e. 28. mars vel heppnað í alla staði og getum við með sanni sagt að yfirskrift kvöldsins átti vel við,

„ÖLL ÞJÓÐIN – EITT HJARTA“

 

Sveinn Guðmundsson
verkefnisstjóri.
Form. Hjartaheilla höfuðborgarsvæðis.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *