Hjartasjúklingar gefa garðrækt meiri gaum en áður. Í auknum mæli hafa heilbrigðisyfirvöld, samtök hjartasjúklinga og áhugafólk um hreyfingu, heilsurækt og almenna líkamsrækt gefið fjölbreyttri endurhæfingu meiri gaum en nokkru sinni fyrr.
Dagleg hreyfing er manninum nauðsynleg, hann er hannaður með það fyrir augum að hreyfa sig hvern dag en sitja ekki auðum höndum.
Heilbrigðisyfirvöld á Englandi hafa styrkt Heilsugæslu Thrive Southampton í nágrenni London til að leggja upp með átak fyrir endurhæfingu hjartasjúklinga og fá þá í lið me sér til að hreyfa sig að minnsta kosti hálftíma á hverjum degi.
Löngum hefur því verið haldið fram að endurhæfing og heilsurækt sjúklinga þurfi að byggjast á áhuga og löngun til að hreyfa sig með gleði og í góðra vina hópi. Á þeirri hugsjón byggist tilraun sú í Englandi sem áður er vísað til. Hjartasjúklingar voru hvattir til að vinna í garðvinnu að minnsta kosti 30 mínútur á hverjum degi. Fjöldi Englendinga hafa litinn garðskika, lítil gróðurhús eða plönturækt á svölum íbúða sinna. Með hvatningu og örvun til að gefa ræktun meiri gaum en áður, afla sér upplýsinga um vöxt og viðgang plantna, blóma og trjáa, umönnun þeirra og hlynningu eykst áhugi og þar með gleði og eftirvænting ræktenda til muna.
Komið hefur í ljós að margir hjartasjúklingar sem höfðu ekki áhuga á hefðbundinni líkamsrækt gáfu hvatningu um garðrækt gaum og sáu nú margs konar tilgang með ræktun sinni. Í fyrsta lagi varð hreyfingin markvissari en nokkru sinni. Í öðru lagi sáu þeir margs konar tilgang með ræktun og gulrætur, rófur og fjölbreyttar salat tegundir brögðuðust mun betur en áður. Viðhorf þeirra til ræktunar breyttist. Undirbúningurinn varð skemmtilegri og áhugaverðari og þeim þótti mun forvitnilegra að fylgjast með vexti og viðgangi plantna sinna frá degi til dags.
Íslendingar gætu lært af frændum sínum og vinum þó að sumarið hér á landi sé styttra en á Bretlandi. Við getum lengt sumarið til muna með því að leggja meiri rækt við garðrækt og ræktun á hvers kyns nytjajurtum og getum líka komið okkur upp lítilli gróðurrækt á svölum okkar. Hreyfingin, ánægjan og eftirvæntingin skiptir miklu máli í endurhæfingu og líðan okkar.
(Status, Hjart- och lungsjukas riksforbunds medlemstidning, tölublað 2, 2009)
ÞSG