Endurhæfing hjartasjúklinga í Danmörku

Dönsku hjartasamtökin hafa rannsakað hve margir hjartasjúklingar nýta sér fulla endurhæfingu eftir greiningu, aðgerð og meðferð. Aðeins 3% hjartasjúklinga njóta fullrar endurhæfingar og er hlutfallið svo lágt vegna skorts á sálrænni og félagslegri endurhæfingu.

 

Miklar umræður eru ætíð um endurhæfingu hjarta- og æðasjúklinga þar sem þjálfun, hreyfing og endurhæfing til líkama og sálar skiptir meginmáli fyrir lífsgæði sjúklinganna. Hér á landi hefur endurhæfing verið í föstum skorðum allt frá því að aðgerðir og meðferð hófst við hjarta- og æðasjúkdómum og árangur sífellt batnað með árunum. Nægir hér að nefna Reykjalund,
HL-stöðvarnar og sjúkraþjálfunarmiðstöðvar um allt land.

 

Ekki er undirrituðum þó kunnugt um hvort hafi farið fram nákvæmar rannsóknir á endurhæfingu íslenskra hjartasjúklinga og fylgst með þeim og aðstandendum þeirra, en á því væri svo sannarlega brýn þörf. Má þar sérstaklega minna á þörf aðstandenda fyrir hjálp, aðstoð og fræðslu og hvernig henni er gerð skil í íslensku heilbrigðiskerfi.

 

Í fyrrnefndri rannsókn dönsku hjartasamtakanna kemur í ljós að um 10% hjartasjúklinga fær sálrænan stuðning og endurhæfingu en aðeins 6% af nánustu aðstandendum hljóta stuðning. Um 26% hjartasjúklinga nefnir að aðstandendur hafi tekið þátt í hluta endurhæfingar. Hér er enn ítrekað að nauðsynlegt er að aðstandendur fá þá hjálp, fræðslu og jafnvel meðhöndlum ef
með þarf.

 

Eftirfarandi þættir felast í fullri endurhæfingu:

Læknisfræðilegt eftirlit og meðferð.
Næringarráðgjöf.
Sjúkraþjálfun.
Fræðsla um sjúkdóma, heilsufar og viðhorf.
Sálrænn stuðningur fyrir sjúkling.
Sálrænn stuðningur fyrir aðstandendur.

 

Um 60% hjartasjúklinga taka þátt í endurhæfingu á sjúkrahúsum, 24% eru í endurhæfingu hjá læknum, en aðeins um 12% njóta stuðnings sveitarfélagsins við endurhæfingu. Sveitarfélögin hafa ekki sett á stofn eða tekið þátt í endurhæfingarstöðvum eða greitt götu sjúklinga varðandi endurhæfingu og álíta margir að á sviði forvarnar og endurhæfingar þurfi sveitarfélögin að hefja stórátak hið fyrsta.

 

Þá kemur einnig í ljós kynjamunur varðandi þátttöku í endurhæfingu. Karlar sem þjást af hjarta- og æðasjúkdómum eru duglegri við endurhæfingu en konur og eru yfirleitt ánægðari með þjálfun. Þá kemur einnig í ljós að yngri aldurshópar, 60 ára og yngri eru óánægðari með endurhæfingu en þeir eldri og fá síður góða fræðslu um möguleika á sviði endurhæfingar.

 

Því betri og markvissari sem endurhæfing er eftir greiningu, aðgerð og meðferð á sjúkrahúsi hjá hjarta- og æðasjúklingum þeim mun meiri líkur eru á að viðkomandi njóti betri heilsu, lifi lengur og auki lífsgæði sín.

 

Hér liggur því í augum uppi að bæði heilbrigðisyfirvöld og sveitarfélög ásamt með félögum og félagasamtökum ættu að kappkosta að leggja upp sameiginlega heildardagskrá og stefnumótun um forvarnar- og heilsuátak um allt land.

 

Raunhæft er að kjósa fulltrúa í hverju sveitarfélagi til að sjá um og annast framkvæmdir á hverjum stað og samræma aðgerðir. Við Íslendingar þörfnumst þess svo sannarlega og erum vel í stakk búnir til að takast á við slíkt verkefni.
(Sjá nánar:  www.hjerteforeningen.dk
ÞSG

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *