Frá ritstjóra

Tíminn líður og allt er í heiminum hverfult eins og Jónas Hallgrímsson sagði á sínum tíma. Ekkert er nýtt undir sólinni, sagði annar orðspakur maður löngu fyrr og enn stöndum við
Íslendingar á tímamótum og spyrjum: Hvert stefnum við? Hjartaheill hefur frá upphafi stefnt að einu markmiði með eitt í huga: Að efla heilsu einstaklinga með ráðum og dáð. Að efla heilsu þjóðarinnar, auka lífsgæði  svo að allir geti lifað við farsæld og frið.

 

Við höldum áfram að settu marki. Ósk okkar er sú að sérhver finni sér farveg í lífinu, finni „lykil lukkunnar“ og haldi eins góðri heilsu og mögulegt er.

Að sjálfsögðu er hver sjálfum sér næstur eins og verið hefur um aldir, en þörf okkar hvert fyrir annað er enn í fullu gildi eins og verið hefur frá örófi alda. Hinn góðkunni Þórarinn Eldjárn hættir sér í stutt og gott skraf við Hallgrím Pétursson þó að hann telji hann ekki heyra í sér:

 

Menn segja að nú sé önnur öld
allt annað leiksvið, grímur og tjöld
í helstu atriðum er þó flest
enn í sömu skorðum fest:

 

Hver einn vill bjarga sjálfum sér
á sama hátt og var hjá þér
og enn þarf að kljást við söknuð og sorg
sem verður ekki borin á torg.

 

Þú gerðir þér við dauðann dátt
með drottin á vörum  hann tókst í sátt.
Það geri ég ekki, öll mín trú
er alveg bundin við hér og nú.

 

Þurfamaður er samt mín sál
sækir í ást, í fólk, í mál.
Huggun er manni mönnum að
munum við geta sæst á það.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *