Fyrir rúmlega fimm árum, á 20 ára afmæli Hjartaheilla, tókst góð og áralöng samvinna og samstarf með fulltrúum og eigendum Stjörnunnar ehf sem rekur SUBWAY® á Íslandi og fulltrúa samtakanna. Ákveðið var að andvirði á sölu svokallaðra heilsubáta sem innihalda minna en 6 gr. af fitu og andvirði á sölu Topps-drykkja skyldi renna til Hjartaheilla. Var miðað við Alþjóðlega Hjartadaginn sem haldinn er ár hvert síðasta sunnudag í septembermánuði.
Gunnar Skúli Guðjónsson, framkvæmdastjóri Subway, afhenti samtökum Hjartaheilla fyrir skömmu eina milljón krónur í styrk, en Anney Birta Jóhannesdóttir, sem átti 7 ára afmæli um þessara mundir sést hér taka á móti styrknum.
Í samtali við Gunnar Skúla kom í ljós að Íslendingum líkar vel matur og þjónusta sem starfsfólk Subway hefur boðið upp á undanfarin ár. Fyrsti Subway-veitingastaðurinn var settur á laggirnar í Faxafeni árið 1994 og hefur þeim fjölgað jafnt og þétt. Segir hann ennfremur að talsverð aukning hafi orðið í sölu á heilsubátunum þar sem lögð er áhersla á mjög skert fituinnihald, innan við 6 grömm, eins og áður sagði og forðast eru feitir ostar og sósur með mikilli fitu, en fjölbreytt grænmeti sé hins vegar hlutfallslega mikið. Gunnar segir ánægjulegt hvað ungt fólk sæki Subway-veitingastaðina vel sem eru nú 18 talsins í Reykjavík og víða um landið en sá síðasti var tekinn í notkun á Egilsstöðum. Þá má einnig geta þess að á heimasíðu Subway birtist reglulega merki samtaka Hjartaheilla.
Framkvæmdastjóri Hjartaheilla, Ásgeir Þór Árnason, segir að samstarf samtakanna við fulltrúa Subway hafi verið heilladrjúgt þessi ár og vill hann þakka þeim fyrir samstarfið í rúmlega 5 ár. Hafi styrkirnir ætíð komið samtökunum vel, en ekki síst nú, á erfiðum tímum efnahags á Íslandi sé gott og uppörvandi að vera í samstarfi við aðila sem skilja starf og markmið samtaka eins og Hjartaheilla.