Í haust verða liðin sextíu ár síðan Happdrætti SÍBS hóf starfsemi sína.
Árið 1949 var Vöruhappdrætti SÍBS stofnað en þá hafði undirbúningur staðið í tæp tvö ár. Áður höfðu verið rekin happdrætti samkvæmt sérstökum leyfum í hvert sinn en þessi nýju lög kváðu á um einkaleyfi til reksturs vöruhappdrættis í 10 ár. Með því komst á reglubundinn happdrættisrekstur hjá SÍBS sem staðið hefur óslitið síðan. Í upphafi var miðað við að söluverð hvers miða væri um það bil tímakaup Dagbrúnarverkamanns, en það viðmið lækkaði síðan og stenst ekki lengur.
Byggt var upp þétt net umboðsmanna um allt land og þátttaka almennings varð mjög mikil. Árið 1982 voru seldir miðar tæplega 66.000, en fljótlega upp úr því komu fram á sjónarsviðið ýmsir aðrir happdrættismöguleikar sem drógu úr miðasölu, svo sem Lottóið og síðan spilakassar sem drógu til sín viðskipti.
Sala happdrættismiða dróst jafnt og þétt saman næstu tvo áratugi, en síðustu ár hefur náðst að halda í horfinu eða því sem næst. Happdrættið heitir nú Happdrætti SÍBS og er leyfilegt að greiða út vinninga í peningum, auk þess sem hægt er að kaupa nýja miða hvenær sem er ársins, en áður var nær eingöngu selt í janúar.
Á þessum 60 árum hafa margir öðlast nýja tilveru vegna vinninga í Happdrætti SÍBS og eru margar sögur af slíkum vinningum, sem m.a. hafa verið raktar í SÍBS blaðinu, sem kemur út þrisvar á ári. Auk mjög veglegra peningavinninga hafa bílar oft verið í vinninga, bæði stórir og smáir, sumarhús, hjólhýsi og fjöldamargt annað.
Allur hagnaður af rekstri Happdrættis SÍBS fer til framkvæmda á Reykjalundi endurhæfingarstöðvar SÍBS eða til stuðnings því starfi sem unnið er á Múlalundi, vinnustofu SÍBS, þar sem öryrkjar hafa átt starfsvettvang í hálfa öld. Starfsemin á þessum stöðum hefur borið hróður SÍBS og happdrættisins um landið og mjög margir viðskiptavinir okkar eru með miðakaupum sínum að þakka fyrir þjónustu sem þeir eða fjölskyldur þeirra hafa notið af hálfu SÍBS. Á haustdögum verður væntanlega eitt og annað á döfinni í tilefni afmælisins.
PB