HL stöðin fagnar 20ára afmæli

Þýðingarmikil þjónusta með góðu fólki.

,,Fjögur skref áfram, lyfta hnjám fjórum sinnum og fjögur skref aftur, einn, tveir, þrír, fjórir…” Þessi og önnur álíka fyrirmæli heyrast gjarnan síðdegis í Íþróttahúsi fatlaðra við Hátún í Reykjavík þegar sjúkraþjálfarar HL stöðvarinnar fá okkur til að hreyfa okkur almennilega og hamast eftir kúnstarinnar reglum.

Kringum 350 manns sækja reglulega þjálfun og uppbyggingu í HL stöðina sem um þessar mundir fagnar 20 ára afmæli. Í dag starfa þar 14 sjúkraþjálfarar, þrír læknar og ritari og eru öll í hlutastörfum og sinna þessum verkefnum sínum síðdegis alla virka daga. Framkvæmdastjóri er Sólrún H. Óskarsdóttir sem á að baki langan starfsferil í HL stöðinni.

 

Gott úthald.
,,Ég er búin að starfa hér í 18 ár, fyrst við þjálfun og svo hefur hlaðist utan á starfið og undanfarin ár hef ég líka gegnt stöðu framkvæmdastjóra,” segir Sólrún og bætir við að starfsaldur flestra starfsmanna stöðvarinnar sé langur. ,,Rétt eins og úthald þeirra sem þjálfa hjá okkur, þeir eru til sem hafa verið hér frá upphafi og síðan fjölmargir sem koma ár eftir ár og það eru stórir hópar sem hafa sótt sér þjálfun hingað í áraraðir.”

 

Tilgangur HL stöðvarinnar er að veita hjarta- og lungnasjúklingum endurhæfingu í framhaldi af sjúkrahúsvist og síðan framhaldsendurhæfingu eða viðhaldsþjálfun eins og hún er oftast nefnd. Einnig sinna starfsmenn stöðvarinnar viðamiklu ráðgjafar- og fræðslustarfi um hjarta- og lungnasjúkdóma, lifnaðarhætti, mataræði, réttindi sjúklinga og fleira.

Áður en HL stöðin tók til starfa voru úrræði fyrir hjarta- og lungnasjúklinga eftir fyrstu endurhæfingu ekki mörg. ,,Þá var dvöl á Reykjalundi aðal valkosturinn og flestir fóru þangað í nokkrar vikur en síðan var ekki margt í boði. Því má segja að nánast ekkert hafi tekið við.

En framsýnir menn og dugmiklir drifu þá í því að stofna HL stöðina og fyrstu árin var hún til húsa í Æfingastöð Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra við Háaleitisbraut en flutti sig síðan um set hingað í Hátúnið.”

 

HL stöðin hefur búið við gott atlæti hjá Íþróttafélagi fatlaðra og húsið er vel nýtt frá morgni til kvölds af hinum ýmsu hópum og aðilum sem þangað vilja sækja styrk og þol.  Viðbótarbygging var nýverið tekin í notkun og við það batnar aðstaðan mjög. Hægt er að hafa þrekhjólin í sérstökum sal, annar salur er fullur af æfingatækjum og í þeim þriðja fer grunnþjálfunin fram. Eftir sem áður er íþróttasalurinn síðan notaður stíft.

 

Sólrún segir að þjálfun eftir hjarta- eða lungnasjúkdóma hefjist á sjúkradeildum en grunnþjálfun taki síðan við tveimur til átta vikum eftir hjartaáfall eða aðgerð og hún tekur að jafnaði 8 vikur. ,,Þessir hópar eru fámennir og á þeim tíma er fylgst með hjartslætti og púls á skjá, fylgst með súrefnismettun, blóðþrýstingur mældur í áreynslu og í lok tímans og við fylgjumst einnig með þyngd. Læknir er alltaf í húsinu og þeir geta gripið inn í ef eitthvað kemur upp á. Í þolprófunum, sem er mikilvægt öryggistæki í endurhæfingunni, er skimað eftir ástandi hjarta og æðakerfis. Við höfum verið afskaplega lánsöm í endurhæfingunni enda er vandað til verksins.“ Þegar grunnþjálfun lýkur fara menn í þolpróf og staðan metin fyrir næsta skref sem er framhaldsþjálfunin eða viðhaldsþjálfun.

 

Grunnur að velferð
,,Í viðhaldsþjálfun skipum við fólki í hópa eftir getu og við mælum blóðþrýsting reglulega og fylgjumst áfram með þyngd og menn fylgjast sjálfir með púlsinum. Viðhaldsþjálfunin hefur einkum þann tilgang að tefja framgang sjúkdómsins.”

 

Sólrún segir að í grunninn sé starfsemin og þjálfunin með sama hætti og þegar starfið hófst fyrir 20 árum. ,,Þetta er alltaf sami gangurinn, við notum sama formið og fyrir 20 árum og teljum að árangurinn sýni sig í því að fólk sækir hingað ár eftir ár til að fá reglulega þjálfun sem dregur úr æðakölkun, bætir blóðflæði, lækkar blóðþrýsting og styrkir hjartavöðvann.

Þetta þýðir að fólki eykst styrkur og þor en það er einmitt mikilvægur hluti þjálfunarinnar að menn öðlist sjálfstraust og trú á því að það nái fyrri styrk og krafti til að takast á við daglegt líf og starf.” Undirritaður tekur undir þessi orð og þótt reynsla hans af þjálfun í HL stöðinni sé ekki nema tæpt ár má hiklaust fullyrða að reglubundin þjálfun undir aga sjúkraþjálfaranna leggur grunn að líkamlegri og andlegri velferð. 

Jóhannes Tómasson

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *