Nýtt lyf – Fjölþætt virkni á áhættuþætti

Rannsóknir hófust nýlega á lyfi sem talið er að geti orðið hlutfallslega ódýr leið til að fækka dauðsföllum af völdum hjartasjúkdóma og heilablóðfalla. Á sama tíma er þó lögð rík áhersla á að aldrei megi gleyma breyttum og bættum lífsstíl, þ.e. hollu og heilbrigðu mataræði, hreyfingu og líkamsrækt í baráttu við sjúkdóma sem oft eru tengdir lífsháttum og lífsstíl fólks.

 

Axel F. Sigurðsson, hjartalæknir, sótti fyrir skömmu ráðstefnu í Bandaríkjunum þar sem meðal annars komu fram nýjustu upplýsingar um rannsóknir á svokallaðri polypill eða fjölvirknilyfi til varnar hjarta- og æðasjúkdómum. Við báðum Axel um að endursegja í stuttu máli það sem fram kom á þinginu og sagt er m.a. frá í tímaritinu New Scientist.

 

Nýlega voru birtar á þingi bandarísku hjartalæknasamtakanna (American College of  Cardiology) fyrstu niðurstöður rannsókna á pillu/hylki sem sameinar margar tegundir lyfja sem notuð eru gegn hjarta-og æðasjúkdómum.

 

Það var indverski prófessorinn Salim Yusuf sem nú starfar við McMaster háskólann í Hamilton í Ontario-fylki í Kanada sem kynnti niðurstöðurnar. Rannsóknin var unnin í samstarfi við lækna á St John’s Medical College í Bangalore á Indlandi.
 
Fjölvirknilyfið, sem á ensku hefur verið nefnt „polypill“,  er talið geta verið ódýr leið til að fækka dauðsföllum  af völdum hjartasjúkdóma og heilablóðfalla.  Talið er líklegt að mánaðarskammtur muni ekki kosta meira en einn bandaríkjadal. Lyfið samanstendur af blóðþynnandi aspiríni (magnyl), statini (blóðfitulækkandi), beta blokka (lækkar hjartsláttarhraða), ACE-hemli (blóðþrýstingslækkandi) og tíazíði (blóðþrýstingslækkandi). Öll þessi lyf eru talin geta gegnt lykilhlutverki í baráttunni við hjarta-og æðasjúkdóma og dauðsföll og örorku af þeirra völdum.

 

Fyrstu rannsóknirnar á áhrifum „polypillunnar” voru framkvæmdar nýlega á Indlandi. Í rannsókninni tóku þátt rúmlega 2.000 einstaklingar sem ekki höfðu þekktan hjarta- og æðasjúkdóm en höfðu einn áhættuþátt svo sem háþrýsting eða hækkaðar blóðfitur. Niðurstöðurnar þykja lofa góðu og benda til þess að pillan hafi fáar aukaverkanir og framkalli marktæka lækkun á blóðþrýstingi og blóðfitum. Þessi áhrif eru talin geta dregið verulega úr tíðni dauðsfalla af völdum hjarta – og æðasjúkdóma hjá einstaklingum í áhættuhóp. Fyrirhugaðar eru mun umfangsmeiri rannsóknir til að meta áhrif „polypillunar” á horfur og dánartíðni.

 

Simon Thorn við Imperial College í London  telur ekki ólíklegt að í þróunarlöndum verði pillunni dreift „nánast blint“ til allra sem eru eldri en 55 ára. Hins vegar er talið að í löndum þar sem fólk hefur betri aðgang að læknum og lyfjum sé ólíklegra að slíkri fjöldameðferð verði beitt, heldur verði lyfjameðferð klæðskerasniðin að hverjum og einum eins og tíðkast hefur hingað til. 

 

(Sjá ennfremur:
http://www.newscientist.com/article/mg20026762.900-multidrug-polypill-finall
y-to-tackle-heart-problems.html?DCMP=ILC-hmts&nsref=news9_head_mg20026762.900 og http://www.medicalnewstoday.com/articles/144796.php)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *