
Halldór Sævar Guðbergsson, formaður Öryrkjabandalags Íslands hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs. Formannsskipti verða hjá ÖBÍ á aðalfundi bandalagsins í október næstkomandi.
Halldór tilkynnti ákvörðun sína á fundi aðalstjórnar ÖBÍ í gærkvöldi. Hann sagði ákvörðunina fyrst og fremst af persónulegum ástæðum en hann hefur ráðið sig til starfa hjá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga. Hann mun m.a. koma að uppbyggingu miðstöðvarinnar. Þá mun hann sinna kennsluráðgjöf, einkum hjá einstaklingum á Norðurlandi, þar sem hann er búsettur.
Halldór S. Guðbergsson var kjörinn formaður ÖBÍ á aukafundi milli aðalfunda ÖBÍ sem haldinn var um miðjan febrúar 2008 eftir að Sigursteinn Másson sagði af sér formennsku. Halldór var formaður Blindrafélagsins frá 2005-2008, einnig var hann formaður þess árin 1999-2001.
Halldór er lauk íþróttakennaraprófi frá Íþróttakennaraskóla Íslands 1995. Að námi loknu hefur hann m.a., unnið sem íþróttakennari, sundþjálfari hjá Íþróttfélagi fatlaðra, markaðsfulltrúi Blindrafélagsins og sinnt fullorðinsfræðslu fatlaðra.
Hann tekur til starfa hjá Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga 1. september nk. en formannsskipti verða hjá ÖBÍ á aðalfundi bandalagsins í október.
Morgunblaðið fimmtudaginn 13. ágúst 2009