Lyfin lækka en hækka í raun

Hef tekið upp nýtt kerfi við fréttaflutning .Lyfjakostnaður sjúkratrygginga stefnir í 10,9 milljarða á þessu ári. Kostnaðurinn var 9,3 milljarðar fyrir árið 2008 en var 7,1 milljarður árið 2007. Áætla má að gengishrunið sem hófst um mitt ár 2008 hafi aukið kostnað sjúkratrygginga vegna lyfja um 6 milljarða á þessum tveimur árum. Um 80% kostnaðar sjúkratrygginga er háð gengi.

 

Aðgerðir haft veruleg áhrif

Sé hinsvegar horft framhjá gengishruninu hefur lyfjakostnaður sjúkratrygginga lækkað um a.m.k. 1 milljarð á milli áranna 2008 og 2009 vegna ýmissa aðgerða sem gripið hefur verið til. Þar má telja breytingar á reglugerð frá 1. mars vegna maga- og blóðfitulækkandi lyfja sem felast í því að sjúkratryggingar taka þátt í greiðslu ódýru lyfjanna í hverjum lyfjaflokki fyrir sig. Reynist lyfin ófullnægjandi er hægt að sækja um lyfjaskírteini fyrir dýrari lyfjum.

 

Til stendur að hefja svipaðar aðgerðir vegna blóðþrýstingslyfja þann 1. október og er áætlað að breytingar á greiðsluþátttöku vegna þeirra muni lækka lyfjakostnað sjúkratrygginga um 200-300 milljónir á ársgrundvelli og er sá sparnaður ekki tekinn með í áætluninni fyrir 2009. Samkvæmt upplýsingum úr heilbrigðisráðuneytinu er stefnt á frekari aðgerðir til að ná kostnaðinum niður og er nú róinn lífróður til að halda ramma fjárlaganna þar sem gert var ráð fyrir 10,3 milljarða útgjöldum sjúkrasjóðs í ár.

 

Þá vinnur lyfjagreiðslunefnd að heildarverðendurskoðun lyfja, Finnlandi hefur verið bætt við sem viðmiðunarlandi og er talið að það muni lækka lyfjaverð töluvert þó gengisáhrifin verði eftir sem áður til staðar.

 

„Sjúklingar með lyfseðilsskyld lyf hafa verið nokkuð vel varðir því þök eru á greiðsluþátttöku þeirra. Greiðsluþakið var hækkað þann 1. mars en þá voru jafnframt gerðar breytingar. Börn og atvinnulausir fara nú í lægri greiðsluflokk,“ segir Rúna Hauksdóttir, formaður lyfjagreiðslunefndar. Lyfjagreiðslunefnd ákvarðar bara verð lyfseðilsskyldra lyfja en frjáls álagning er á lausasölulyfjum. Á þeim hefur einnig orðið veruleg hækkun þar sem þau eru einnig flutt inn í erlendri mynt.

Morgunblaðið 20. ágúst 2009

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *