Hjartveik börn og foreldrar þeirra eru fórnarlömbin

Guðrún Pétursdóttir, formaður styrktarsjóðs hjartveikra barna. MYND/hi.is

Guðrún Pétursdóttir, formaður styrktarsjóðs hjartveikra barna, segir í samtali við fréttastofu að hjartveik börn og foreldrar þeirra séu fórnarlömb þess að Landsbankinn virti ekki vörslusamning sem gerður var við sjóðinn árið 2005. Fjórðungur sjóðsins gufaði upp í höndum Landsbankans.

 

Guðrún Pétursdóttir, formaður styrktarsjóðs hjartveikra barna. MYND/hi.is Guðrún segir að fjárfestingar Landsbankamanna með peninga sjóðsins hafi fari langt út fyrir það sem lagt var upp með í upphafi. „Við héldum að við hefðum tryggt okkur gegn svona framferði með því að gera sérstakan samning þar sem tekið var sérstaklega fram hvernig ávaxta bæri okkar fé," segir Guðrún.

 

Eitthvað virðast Landsbankamenn þó hafa misskilið fjárfestingastefnu sjóðsins því í stað þess að fjárfesta í öruggum fjárfestingum líkt og ríkisskuldabréfum þá keyptu Landsbankamenn bréf í peningamarkaðssjóðum þar sem fyrir voru á fleti handónýt skuldabréf fyrirtækja á borð við FL Group og Eimskip.

 

„Við verðum að sjá hvaða áhrif þetta hefur á sjóðinn og skjólstæðinga hans. Svona svik eins og bankinn viðhafði eru auðvitað mjög alvarleg og hafa bein áhrif á hjartveiku börnin og þeirra aðstandendur," segir Guðrún.

 

Samkvæmt upplýsingum frá Neistanum, félagi hjartveikra barna sem nýtur góðs af styrktarsjóðnum, styrkir sjóðurinn um 25 fjölskyldur á ári sem þurfa að fara til Boston vegna hjartaðgerða. Guðrún Bergmann, formaður Neistans, sagði í samtali við fréttastofu að félagið horfði ekki fram á bjarta tíma. „Sjóðurinn skiptir öllu máli fyrir okkur og það verður erfiðara og erfiðara að safna peningum," segir Guðrún.

Visir þriðjudaginn 1. september 2009

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *