Að lifa með kransæðasjúkdóm

Nánast daglega greinast  einstaklingar hér á landi í fyrsta sinn með kransæðasjúkdóm. Stundum er um vægan sjúkdóm að ræða sem skerðir lífsgæði fólks lítið sem ekkert og auðvelt er að ráða við. Í öðrum tilvikum er um alvarlegri sjúkdóm að ræða sem hefur veruleg áhrif á lífsgæði og lifnaðarhætti viðkomandi einstaklings og hans nánustu fjölskyldu.

 

Það er mikil lífsreynsla að greinast með alvarlegan sjúkdóm. Við verðum skyndilega meðvituð um okkar eigin veikleika og vanmátt gagnvart lífi og dauða. Fyrirvaralaust þurfum við að gangast undir rannsóknir og aðgerðir sem oft virka framandi og við kann að taka langvinn lyfjainntaka og krafa um breytingar á hegðun okkar og lífsmynstri. Undir þessum kringumstæðum er mikilvægt að skilja eðli sjúkdómsins og tileinka sér leiðir til þess að takast á við líkamlegar, andlegar og félagslegar afleiðingar hans. Stærsta áskorunin er að snúa lífsreynslu, sem er í eðli sínu neikvæð, yfir í jákvæðan farveg sem stuðlar að því að við verðum hraustari, betri og hamingjusamari einstaklingar.

 

Í haust mun Hjartamiðstöðin í samvinnu við Heilsustöðina bjóða upp á námskeið fyrir einstaklinga sem greinst hafa með kransæðasjúkdóm. Námskeiðið ber heitið "Að lifa með kransæðasjúkdóm". Markmiðið er að auka skilning á eðli kransæðasjúkdómsins, áhættuþáttum, meðferðarmöguleikum, lyfjameðferð og áhrifum sjúkdómsins á daglegt líf. Sérstök áhersla verður lögð á næringarfræði, mataræði, hreyfingu, félagslega og andlega þætti svo sem kvíða, depurð, afstöðu og viðhorf til sjúkdómsins.

 

Námskeiðið, sem verður haldið í Hjartamiðstöðinni, Holtasmára 1 í Kópavogi, fer fram milli kl. 17-19 síðdegis, einu sinni í viku í 4-6 vikur, alls 8-12 tímar.

 

Aðalumsjónarmenn námskeiðsins eru Axel F. Sigurðsson hjartalæknir, Haukur Sigurðsson klínískur sálfræðingur og Fríða Rún Þórðardóttir næringarfræðingur. Leitast verður við að halda námskeiðskostnaði í lágmarki.

 

Þeim sem hafa áhuga á að taka þátt í  námskeiðinu sem er fyrirhugað í september – október er bent á að hafa sambandi við Hjartamiðstöðina í síma 5503030.

Sjá meira http://hjartamidstodin.is/index.php?option=content&task=view&id=61&Itemid=88

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *