YFIR 400 Íslendingar deyja árlega fyrir aldur fram vegna reykingatengdra sjúkdóma.Læknar segja þetta faraldur og vilja láta taka tóbak úr almennri sölu í þrepum næstu 10 árin.
Þeir vilja láta koma á fót sérstökum tóbaksvöruverslunum, að því er Kristján G. Guðmundsson, yfirlæknir Heilsugæslunnar í Glæsibæ, greinir frá.
Kristján er í undirbúningsnefnd vegna Tóbaksvarnaþings á vegum Læknafélags Íslands sem hefst nú á föstudaginn en aðalfundur og stjórn félagsins telja ástandið í málaflokknum óviðunandi.
Stærsti heilbrigðisvandinn
»Reykingar eru stærsti heilbrigðisvandi þjóðarinnar. Þótt skaðsemi reykinga hafi verið þekkt í rúma hálfa öld reykja enn um 20 prósent þjóðarinnar. Við viljum segja frá því hversu margir tapa heilsunni og deyja vegna notkunar tóbaks,« segir Kristján.
Hann getur þess að læknar geri sér grein fyrir því að aukið átak í tóbaksvörnum verði ekki gert nema víðtæk sátt verði um það í samfélaginu.
»Slíkt átak var gert vegna berkla og sullaveiki á sínum tíma. Þetta var áratugavinna með þungum kostnaði en það var hægt að láta þessa sjúkdóma hverfa. Með hertu átaki gegn reykingum yrðu þeir sem reykja kannski aðeins 3 til 5 prósent eftir 10 til 15 ár.«
20 ánetjast í hverri viku
Nú ánetjast 20 unglingar hér á landi tóbaki í hverri viku. Að minnsta kosti helmingur þeirra mun deyja úr reykingatengdum sjúkdómum, að því Kristján greinir frá.
»Langflestir byrja á þessu sem fikti og ánetjast svo. Það er erfiðara fyrir reykingamann að hætta reykingum en fyrir heróínfíkil að hætta notkun heróíns. Það þarf að takmarka aðgengi fólks undir tvítugu að tóbaki á sama hátt og að áfengi.«
Kristján segir áhersluna á meðferð tóbaksfíkla ónóga. »Sérhæfing í meðferð og framboð úrræða er miklu minna en vegna ýmissa annarra sjúkdóma. Viðbúnaður samfélagsins til þess að takast á við þetta er miklu minni en efni standa til.«
Morgunblaðiða 9. september 2009