Aukin samvinna og skýrari verkaskipting

Hulda Gunnlaugsdóttir tekur að sér að tímabundna verkefnisstjórn við að hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun um samstarf og markvissari verkaskiptingu á milli heilbrigðisstofnana. Hulda Gunnlaugsdóttir, sem fengið hefur ársleyfi sem forstjóri Landspítalans, hefur fyrir orð Ögmundar Jónassonar, heilbrigðisráðherra, tekið að sér þetta verkefni og er marmiðið að setja fram tímasetta verkáætlun sem byggist á starfi sem fram hefur farið undanfarna mánuði um hagræðingu í heilbrigðiskerfinu.

 

Er þetta gert til að ná fram markvissari rekstri heilbrigðisstofnana á næstu árum með aukinni samvinnu og skýrari verkaskiptingu innan kerfisins. Reynt verður að draga eins lítið úr þjónustu við sjúklinga og kostur er þrátt fyrir þann mikla niðurskurð í heilbrigðiskerfinu sem nú blasir við. Sömuleiðis er ætlunin að reyna að koma í veg fyrir uppsagnir starfsmanna sem mest menn geta. Við skipulagsbreytingar og breytta verkaskiptingu í starfsemi heilbrigðisstofnana er lögð rík áhersla á víðtækt samráð við fulltrúa starfsmanna og samtök þeirra.

 

Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, segir það afar mikilvægt að fá Huldu Gunnlaugsdóttur sem liðsauka inn í þetta starf sem unnið hefur verið í náinni samvinnu stjórnenda heilbrigðisstofnana í landinu og almannasamtaka undanfarna mánuði. Hún hafi víðtæka reynslu af skipulagsbreytingum bæði hér á landi og frá Noregi. “ Okkur hefur miðað vel í þessari vinnu en verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er risavaxið og við verðum að nýta allt okkar besta fólk, á öllum sviðum, til að komast í gegnum samdráttinn, án þess að öryggi sjúklinga sé stefnt í voða. Til að það megi takast verðum við öll að vinna saman,” segir Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *