Uggandi um hag sjúklinga í niðurskurðinum

Fossvogur Hagsmunasamtök sjúklinga vilja samráð um hagræðingu.
HAGSMUNASAMTÖK sjúklinga fylgjast nú með því af hliðarlínunni hvernig brugðist verður við sparnaðarkröfum á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi.
Enn er margt óljóst um hvernig hagrætt verður en heyra má á talsmönnum sjúklinga að þar hafi menn áhyggjur af því sem framundan er.
Fossvogur Hagsmunasamtök sjúklinga vilja samráð um hagræðingu.»Við erum náttúrlega með hnút í maganum yfir öllum þessum sparnaðaraðgerðum,« segir Ásgeir Þór Árnason, framkvæmdastjóri Hjartaheilla. »Við erum mjög uggandi um hag okkar skjólstæðinga, sem eru einstaklingar sem þurfa töluvert mikið á hátækniþjónustu að halda.«
Ásgeir segir að enn sé beðið eftir því hvaða ráðstafanir verði gerðar á Landspítala en hjartasjúklingar séu hins vegar þegar farnir að finna fyrir sparnaðaraðgerðum sem gripið var til fyrr á árinu þegar niðurgreiðslum vegna lyfjakostnaðar var breytt.
Þá segir Ásgeir það vissulega slæmar fréttir að ekki verði svigrúm til frekari tækjakaupa næstu árin en sem fyrr segir eru hjartasjúklingar mjög háðir hátækniþjónustu.
Hann bendir þó á að ekki sé eintómt svartnætti, því þrátt fyrir ástandið hafi Hjartaheill getað hlaupið undir bagga nú í vikunni og styrkt kaup á nýju hjartalínuritstæki sem vantaði á bráðamóttökuna.
Frá stofnun til stuðnings.
Sigursteinn R. Másson, formaður Geðhjálpar, segir að samtökin muni fylgjast með framvindunni í sparnaðaraðgerðum á geðsviði.
Mikilvægt sé að gleyma ekki þeirri stefnumörkun sem þegar er til staðar um afstofnanavæðingu, sem leiði til sparnaðar. »Þetta snýr að styttri innlögnum og öflugri stoðþjónustu, það er hægt að spara með því að vinna hlutina þannig.
Það er nauðsynlegt að ná því fram einmitt vegna þessa ástands, ef við ætlum ekki að horfa hér fram á miklar hörmungar í velferðarkerfinu.«
Morgunblaðið 9. september 2009

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *