Með blóð um allan líkamann

Jóhannes Kristjánsson

Jóhannes kominn heim eftir hjartaígræðslu í Svíþjóð
»NÚ er ég með gott hjarta og blóð um allan líkamann. Með þjálfun hefur mér vaxið ásmegin með hverjum deginum og læknar telja að ég ætti að vera kominn með góðan byr í segl um jól,« segir Jóhannes Kristjánsson eftirherma.

 

Hann gekkst undir hjartaígræðslu í Svíþjóð í septemberbyrjun. Kom að utan sl. föstudag og hefur síðan verið undir eftirliti lækna á Landspítalanum og mun, ef allt gengur eftir, útskrifast í dag.

 

Jóhannes KristjánssonJóhannes fékk kransæðastíflu fyrir um tíu árum og hefur síðan glímt við afleiðingarnar. Hann fékk áfall í byrjun júní og til að halda hjartanu gangandi var flogið með hann til Gautaborgar þar sem grædd var í hann hjartapumpa. Í lok ágúst fór hann með örstuttum fyrirvara aftur til Gautaborgar þar sem nýtt hjarta var grætt í hann.

Á fætur daginn eftir aðgerð »Það var hringt í okkur um klukkan fjögur síðdegis frá Sahlgrenska sjúkrahúsinu í Gautaborg og sagt að þar væri komið hjarta sem hentaði mér. Klukkustund síðar vorum við í sjúkraflugvél á leið til Svíþjóðar,« segir Jóhannes sem fór á skurðarborðið strax um kvöldið. Aðgerðin fór fram þá um nóttina og tók alls tíu klukkustundir.

»Þegar ég vaknaði var ég ísettur slöngum um allan líkamann. Ég spurði hverju þetta sætti og hvort ég færi ekki að komast á skurðarborð. Þá var mér sagt að aðgerðinni væri lokið, nýja hjartað væri komið í mig og allt hefði tekist vel. Meira fann ég nú ekki fyrir þessu.«
Svo vel tókst aðgerðin að strax daginn eftir hafði Jóhannes mátt til að stíga í fætur og á fjórða degi náði hann að ganga 150 metra. Í framhaldinu jókst máttur og þol dag frá degi. Jóhannes lýkur lofsorði á hvernig staðið var að málum á Sahlgrenska, rétt eins og Landspítala. Þar hefst endurhæfing á næstu dögum og í framhaldinu fer Jóhannes á Reykjalund.

Allir vegir færir »Fólki sem fer í hjartaígræðslu heilsast yfirleitt vel. Sjálfur bý ég efalaust að því að hafa verið þokkalega á mig kominn en galt reykinga til þrjátíu ára. Eftir endurhæfingu ættu mér að vera allir vegir færir. Get sópað, ryksugað og sinnt heimilisverkum. Mér er engin vorkunn því nú get ég allt,« segir Jóhannes sem hvetur alla þá sem hafa lent í svipaðri stöðu og hann að sýna þolinmæði. Sjálfur þurfti hann aðeins að bíða í einn mánuð eftir nýju hjarta sem hafi í raun gefið sér nýtt líf.

Morgunblaðið þriðjudaginn 6. október 2009

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *