
Fyrstu skammtarnir af bóluefni gegn svonefndri svínaflensu komu til landsins í morgun og hefst bólusetning heilbrigðisstarfsmanna að öllum líkindum síðdegis.
Svínaflensutilfellum hefur fjölgað mjög síðustu daga, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Úti á landsbyggðinni hefur hún þó líka verið að sækja í sig veðrið.
Haraldur Briem sóttvarnalæknir segir að það liggi á að hefja bólusetningu og framkvæmdin sé í undirbúningi. Næstu daga og fram eftir næstu viku verði það eingöngu heilbrigðisstarfsmenn sem fái bólusetningu, mjög miklu máli skipti að þeir geti staðið vaktina. Næsti hópur eru lögreglu- og slökkviliðsmenn, sem og björgunarsveitarmenn, en síðan verður fólk bólusett sem er með undirliggjandi sjúkdóma, og einnig barnshafandi konur. Almenn bólusetning hefst síðan að þessu loknu.
Mikið álag hefur verið á heilsugæslustöðvum vegna flensunnar og símalínur verið rauðglóandi. Nú þegar hafa borist á þriðja þúsund tilkynningar um inflúensulík einkenni. Langflestir hafa náð heilsu með því að vera rúmliggjandi heima og fara eftir ráðleggingum lækna og hjúkrunarfólks, en þó hafa nokkrir tugir þurft að leggjast inn á sjúkrahús vegna flensunnar. Í gær voru 18 manns inniliggjandi, þar af voru þrír á gjörgæsludeild. Flestir sjúklingarnir eru með aðra undirliggjandi sjúkdóma sem veikir ónæmiskerfi þeirra. Einn af þeim sem liggur á gjörgæslu og er um þrítugt, mun þó ekki hafa verið í áhættuhópi.
Upplýsingar um svínaflensuna má nálgast á: www.influensa.is
Vísir.is fimmtudaginn 15. október 2009