Fjórir á gjörgæslu vegna svínaflensu

bolusetningstarfsmenna

21 liggur á Landspítalanum með svínaflensu, þar af fjórir á gjörgæsludeild. Alls hafa 323 greinst með flensuna hér á landi.

 

bolusetningstarfsmennaFleiri karlmenn hafa greinst en konur, eða 171 á móti 152 konum. Langflestir smitaðra búa á höfuðborgarsvæðinu.

 

Frá 23. september hafa alls 40 verið lagðir inn á Landspítala vegna staðfestrar eða líklegrar inflúensu AH1N1, með öðrum orðum svínaflensu. Fólkið er á aldrinum eins árs til áttræðs og eru flestir með undirliggjandi áhættuþætti.

 

Bólusetning heilbrigðisstarfsmanna hófst í gær. Röðin kemur að starfsfólki í öryggisþjónustu, svo sem lögreglu og slökkviliði, í næstu viku og því næst sjúklingum í forgangshópum í fyrstu vikunni í nóvember.

 

Í þeim hópi er fólk með undirliggjandi sjúkdóma og þungaðar konur. Til undirliggjandi sjúkdóma teljast alvarlegir hjartasjúkdómar. Alvarlegir öndunarfærasjúkdómar sem þarfnast stöðugrar, fyrirbyggjandi lyfjameðferðar, hormónasjúkdómar. Tauga- og vöðvasjúkdómar sem truflað geta öndun. Alvarleg nýrnabilun, lifrasjúkdómar, offita og ónæmisbælandi sjúkdómar.

 

Gert er ráð fyrir að læknar þeirra sem hafa þessa undirliggjandi sjúkdóma hvetji þá til að láta bólusetja sig á heilsugæslustöð og afhendi þeim sérstakt staðfestingarblað sem framvísað er við bólusetningu.

 

Stefnt er að því að hefja almenna bólusetningu, fyrir þá sem ekki tilheyra forgangshópum, í lok nóvember.

 

Visir.is föstudaginn 16. október 2009

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *