Fyrsta dauðsfallið hér

sprauta_boluefni2009

Átján ára fjölfötluð stúlka lést í morgun á Barnaspítala Hringsins af völdum svonefndrar svínaflensu, A(H1N1). Stúlkan veiktist fyrir um 11 dögum og var lögð inn á spítalann síðastliðinn fimmtudag. Þetta er fyrsta dauðsfallið hérlendis af völdum inflúensunnar.

 

sprauta_boluefni2009Greint var frá þessu á blaðamannafundi sem nú stendur yfir með fulltrúum Landspítala, sóttvarnalækni og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

 

Kemur fram í tilkynningu að öll umönnun og meðferð, sem stúlkan naut í veikindum sínum heima hjá sér og á Landspítala, hafi verið mjög góð og í samræmi við aðstæður.

 

26 sjúklingar á Landspítala með svínaflensu

Inflúensan færist enn í aukana, einkum á höfuðborgarsvæðinu en einnig víða á landsbyggðinni. Undanfarnar þrjár vikur lætur nærri að staðfest tilfelli hafi tvöfaldast í hverri viku miðað við fjöldann í vikunni þar á undan. Álag hefur að sama skapi aukist talsvert á starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar, bæði í heilsugæslunni og á Landspítala.

 

Um hádegisbil í dag voru 26 sjúklingar á Landspítala vegna inflúensunnar, þar af fjórir á gjörgæsludeild. Frá því á föstudaginn var, 16. október, hafa fimm inflúensusjúklingar verið lagðir inn á spítalann og þrír verið útskrifaðir á sama tíma.

 

bladamannafundur_bolusetning_20093660 tilkynningar hafa borist

Um 60 manns hafa verið lagðir inn á Landsspítala vegna inflúensunnar frá upphafi faraldursins.

 

Frá 29. júní til 18. október 2009 höfðu borist alls 3660 tilkynningar um inflúensulík einkenni eða staðfest inflúensutilfelli á Íslandi samkvæmt skráningum lækna í rafrænar sjúkraskrár. Staðfest tilfelli eru orðin alls 479.

Morgunblaðið mánudaginn 19. október 2009

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *