Tímapantanir vegna bólusetningar hafnar

Heilsugæslustöðvar landsins taka frá og með deginum í dag, 22. október, við tímapöntunum frá sjúklingum með tilgreinda „undirliggjandi sjúkdóma“ og frá þunguðum konum vegna bólusetningar við inflúensunni A(H1N1).

 

Byrjað verður að bólusetja þá sem þetta á við mánudaginn 2. nóvember 2009 og gert er ráð fyrir að það taki um fjórar vikur að bólusetja alla í þessum hópum – á sjötta tug þúsunda landsmanna.

 

Á nokkrum heilsugæslustöðvum verður samt unnt að hefja þessa bólusetningu fyrir lok október, þ.e.a.s. á svæðum þar sem lokið er að bólusetja starfsmenn í heilbrigðisþjónustu og fólk í svokölluðum öryggishópum og lykilstörfum (lögregla, slökkvilið, aðgerðastjórnir almannavarna o.fl.). Viðkomandi heilsugæslustöðvar kynna/auglýsa nánar hvernig staðið er að málum.

 

Ætla má að mikið álag verði á símakerfi heilsugæslunnar í dag og næstu daga. Fólk er því vinsamlegast beðið um að sýna biðlund og skilning á meðan þetta sérstaka ástand varir.
Gert er ráð fyrir því að læknar sjúklinga með sjúkdóma, samkvæmt meðfylgjandi upptalningu, hvetji þá til að láta bólusetja sig og afhendi þeim sérstakt staðfestingarblað sem framvísað er við bólusetninguna. Þá geta sjúklingar sem greindir hafa verið með sjúkdóma á listanum einnig pantað tíma í bólusetningu þó þeir hafi ekki fengið staðfestingarblöð.

 

Með „undirliggjandi sjúkdómum“ er átt við eftirfarandi:

Hjartasjúkdóma einkum hjartabilun, alvarlega kransæðasjúkdóma og alvarlega meðfædda hjartasjúkdóma.
Öndunarfærasjúkdóma sem þarfnast stöðugrar fyrirbyggjandi lyfjameðferðar (meðal annars astma).
Hormónasjúkdóma (insúlínháða sykursýki og barksteraskort).
Tauga- og vöðvasjúkdóma sem truflað geta öndun.
Alvarlega nýrnabilun.
Alvarlega lifrarsjúkdóma (skorpulifur).
Offitu.
Ónæmisbælandi sjúkdóma (á til dæmis við um krabbameinsmeðferð og líffæraþega).

 

Frétt af vef heilbrigðisráðuneytisins fimmtudaginn 22. október 2009

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *