
Björn Zoega, starfandi forstjóri spítalans. Gjörgæsludeildir Landspítalans nálgast þanmörk vegna svínaflensunnar, segir Björn Zoega, starfandi forstjóri spítalans. Engar hjartaaðgerðir verða á börnum í næstu viku, því hjartavélar spítalans þarf að nota á gjörgæsludeildunum.
Átta voru lagðir inn á landsspítalann í gær og í nótt með svínaflensu og þar af tveir á gjörgæsludeild. Alls eru þrjátíu manns á spítalanum vegna flensunnar og þar af sex á gjörgæslu. Álagið hefur því aukist.
„Þetta er erfitt. Það er mjög mikið að gera, sérstaklega á gjörgæsludeild, en það gengur vel,“ segir Björn.
Björn segir að sjúklingum sé sinnt vel og það sé fullkomið öryggi inni á spítalanum, það sé hinsvegar rétt að á gjörgæsludeild sé að nálgast þanmörk.
Hann segir að þetta muni hafa áhrif á spítalann að öllu leyti og í næstu viku verði takmarkað gert af aðgerðum.
Ákveðið hefur verið að fresta öllum hjartaaðgerðum barna í næstu viku- hjartavélarnar þurfi að nota á gjörgæslunni.
Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að keyptar verði tvær nýjar lungnavélar á Landspítalann fyrir þrjátíu milljónir króna. Björn Zoega fagnar því, enda segir hann spítalann tæpan á ýmsum vélakosti vegna álagsins.
Morgunblaðið föstudaginn 23. október 2009