Óútskýrður skyndidauði rannsakaður

317490_258_preview

Skyndidauða fólks yfir fimmtugu má í flestum tilfellum rekja til kransæðasjúkdóma, en hjá yngra fólki eru sjaldgæfari vandamál orsakir óvæntra dauðsfalla.

 

317490_258_preview„Óútskýrður skyndidauði“ er yfirskrift greinar sem Davíð O. Arnar, sérfræðingur í lyflækningum og hjartasjúkdómum, skrifar í nýjustu útgáfu Læknablaðsins. Þar segir að skyndidauði meðal fólks sem sé í blóma lífsins og sem virðist heilsuhraust, sé nokkuð algengur á Vesturlöndum. Helstu ástæðu slíkra dauðsfalla má rekja til hjartastopps. Fram kemur í greininni að hjá fólki yfir fimmtugu séu kransæðasjúkdómar megin ástæða dauðsfallanna.

 

Hjá yngra fólki er kransæðasjúkdómur ekki jafnveigamikil orsök skyndidauða og hjá þeim sem eldri eru. Þar eru algengustu orsakir sjaldgæfari sjúkdómar eins og hjartavöðvasjúkdómar og ýmsir kvillar sem geta valdið alvarlegum hjartsláttartruflunum. Í um þriðjungi tilfella er ástæða hjartastoppsins hjá þeim yngri óútskýranleg.

Í grein Davíðs kemur fram að þeir sem lifi af hjartastopp ættu að undirgangast ítarlega klíníska skoðun til greiningar á mögulegri orsök. Eins sé við hæfi að nánir ættingjar þeirra sem deyja skyndidauða láti rannsaka sig gaumgæfilega, sér í lagi ef grunur er um arfgenga orsök.

Í samtali fréttastofu við Davíð O. Arnar, kom fram að áætlað sé að hér á landi fari á milli 100 og 200 manns í hjartastopp árlega. Hann segir árangur af endurlífgun vegna hjartastopps á Reykjavíkursvæðinu vera góða, um 20% þessa hóps tekst að endurlífga. Ýmsir samverkandi þættir koma þar til, eins og stuttur útkallstími sjúkrabíls, vel þjálfaðir sjúkraflutningamenn og góð þekking fólks á almennri skyndihjálp eins og hjartahnoði.

Frétt af ruv.is þriðjudaginn 5. janúar 2010

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *