Ný göngudeild bráðadeildar í Fossvogi

spitalifossvogi

Göngudeild bráðadeildar Landspítala hefur tekið til starfa á 2. hæð á Landspítala í Fossvogi. Þetta er liður í sameiningu á tveimur stærstu bráðamóttökum spítalans í lok mars 2010 í eina bráðadeild í Fossvogi, eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Landspítalanum. Sú bráðadeild verður á tveimur hæðum, í núverandi húsnæði slysa- og bráðadeildar og á næstu hæð fyrir ofan.

 

spitalifossvogiBráðavakt á neðri hæðinni annast bráðveika einstaklinga og gönguvakt þá sem eru minna veikir og slasaðir. Gönguvakt verður á hæðinni fyrir ofan núverandi slysa- og bráðadeild og hófst starfsemin þar í dag. Hún verður opin virka daga frá klukkan átta að morgni til klukkan ellefu og um helgar og á hátíðisdögum klukkan tólf til átta. Við komu á bráðadeildina verða einstaklingar flokkaðir samkvæmt bráðaflokkunarkerfi í 5 flokka, þar sem flokkur 1 er mjög bráður vandi og flokkur 5 minni háttar vandi. Því lægri flokkun sem einstaklingur fær þeim mun bráðari telst vandinn og viðkomandi fer framar í forgangsröð en sá sem flokkast hærra.

Unnið verður að breytingum á húsnæði nýrrar bráðadeildar til marsloka. Þeir sem þurfa á þjónustu deildarinnar að halda eru beðnir um að taka tillit til þessa og er minnt á að hægt er að leita með ýmis bráðavandamál til heilsugæslustöðva, s.s. sár, tognun á ökkla og fleira þess eðlis.

Frétt af mbl.is miðvikudaginn 20. janúar 2010

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *