Fjöldi tilkynninga vegna aukaverkana

getfile.php

Meira en helmingi fleiri tilkynningar bárust til Lyfjastofnunar vegna aukaverkana lyfja í fyrra en árið áður. 46 tilvikanna teljast alvarleg. Flestar snerust um bóluefni við svínainflúensu.

 

Tilkynningar um aukaverkanir lyfja voru meira en tvöfalt fleiri á árinu 2009 en árið 2008, samkvæmt nýbirtum tölum Lyfjastofnunar. Í fyrra bárust 203 tilkynningar um aukaverkanir en 92 á árinu 2008.

 

getfile.php

Af þeim tilkynningum sem bárust stofnuninni í fyrra voru 46 metnar alvarlegar. „Aukaverkun er talin alvarleg ef h

ún leiðir til sjúkrahúsvistar, lengingar á sjúkrahúsvist, fötlunar, annars alvarlegs sjúkdómsástands eða dauða,“ segir í skýrslu Lyfjastofnunar.

 

Af þessum alvarlegu aukaverkunum voru tíu vegna fosfatnýrnameins tengt notkun á lyfinu Phosphoral. Phosphoral er hægðalyf notað til að hreinsa þarma fyrir skurðaðgerðir, ristilspeglanir eða röntgenrannsóknir á ristli. Aukaverkanir sem Lyfjastofnun var tilkynnt um á árinu 2009 vegna Phosphoral áttu sér stað á árunum 2005 til 2008.

 

Fjölgun tilkynninga milli ára er fyrst og fremst sögð liggja í því að árið 2009 hafi borist 33 tilkynningar frá lyfjafræðingum, en aðeins sex á árinu 2008 og 34 tilkynningar frá almenningi, en þrjár slíkar hafi borist árið 2008. Flestar tilkynningarnar, 29 talsins, voru vegna Pandemrix, bóluefnis við inflúensu af stofni A(H1N1), svínainflúensu.

 

Rannveig Gunnarsdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar, segir að aukaverkanir vegna bóluefnisins hafi flestar verið vægar, en margir geti fundið fyrir eymslum, vægum hita eða roða eftir flensubólusetningar. Hún áréttar að þótt tilkynningum hafi fjölgað þá þýði það ekki að meira sé um aukaverkanir lyfja. Áður hafi læknar einir tilkynnt um aukaverkanir, en nú hafi bæst við annað heilbrigðisstarfsfólk og almenningur.

 

„Svo er líka fylgst með nýjum lyfjum, sér í lagi fyrstu fimm árin,“ segir Rannveig. Með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu segir hún að lyf hafi komið fyrr inn á markaðinn hér en áður þekktist. „Þegar lyf koma á markað þá er búið að rannsaka þau í ákveðnum fjölda sjúklinga, en sjaldgæfar aukaverkanir koma alla jafna ekki í ljós fyrr en þau eru komin í almenna notkun.“

 

Rannveig segir allar aukaverkanir skráðar hjá Lyfjastofnun Evrópu, en að auki sé starfandi lyfjagátarnefnd sem meti aukaverkanir. Hún segir samstarf mikið á meðal lyfjastofnana í Evrópu og algengt að settar séu inn nýjar viðvaranir, notkun breytt, eða lyf tekin úr sölu. Þannig hafi til dæmis verið brugðist við tilkynningum um nýrnamein af völdum Phosphoral með því að gera lyfið lyfseðilsskylt.

 

Fréttablaðið miðvikudaginn 10. febrúar 2010

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *