Vandi

sveinn_gumundssonff

HEILBRIGÐISYFIRVÖLD hafa á undanförnum mánuðum útilokað fjölda lyfja úr greiðsluþátttöku og þar með gert aðgengi þeirra erfitt eða ekkert.

 

sveinn_gumundssonffUm er að ræða hjartalyf, magalyf, beinþynningarlyf og astmalyf og búist er við að fleiri lyfjaflokkar bætist í þessa upptalningu. Hafa þar flogaveikilyf og geðlyf verið nefnd.

 

Fjárfesting ríkisins í lyfjum var um 7% af heilbrigðisfjárfestingunni árið 2008. Þetta hlutfall er hliðstætt því sem er í löndunum í kringum okkur og lægra ef eitthvað er.

 

Heilbrigðisfjárfesting einkaaðila, það er útlagður kostnaður heimilanna og fyrirtækja, hefur verið hlutfallslega mjög lág gegnum tíðina á Íslandi og við erum vön því að greiðsluþátttaka ríkisins sé fremur há bæði í lyfjum og annarri heilbrigðisþjónustu. Þetta fyrirkomulag er hins vegar ekki sérlega sanngjarnt, þar sem þeim er lenda í veikindum til skemmri tíma er gert jafn hátt undir höfði og þeim langveiku, það vill segja að ríkið borgar alltaf nær allt og það strax. Rétt væri að hér væri einhver þröskuldur settur.

 

Tillögu svokallaðrar Pétursnefndar um greiðsluþátttöku ríkisins í heilbrigðisþjónustu var tekið fagnandi af sanngjörnu fólki á sínum tíma því flestir sáu í hendi sér að ef þær næðu fram að ganga myndu þær auka á jöfnuð landsmanna. Þar var sjúklingum ekki mismunað eftir búsetu eða hvaða sjúkdóma þeir fengu.

 

Nú þegar heldur hefur minnkað fjárstreymið í ríkiskassann er mikilvægt að skoða hvernig að heilbrigðisfjárfestingu er staðið og hvort fénu sé varið á sanngjarnan máta.

 

Aðgerðir heilbrigðisyfirvalda til að minnka endurgreiðslu lyfja hafa ekki verið sanngjarnar gagnvart neinum, hvorki sjúklingum né læknum þeirra sem verða fyrir takmörkun á úrræðum. Heldur ekki gagnvart fyrirtækjunum sem verða fyrir samkeppnishindrun þegar lína er dregin í sandinn og allt sem kostar meira en eitthvað er tekið úr greiðsluþátttöku án nokkurs tillits til virkni, gæða eða því virði sem lyfin hafa fyrir heilbrigðisþjónustuna. Aðgerðirnar eru heldur ekki sanngjarnar gagnvart ríkissjóði til lengri tíma litið vegna þess að þegar svona er gengið fram má reikna með bakreikningi sem numið gæti margfalt þeirri upphæð sem spöruð var. Ef breytingar þær sem gerðar hafa verið á meðferð sjúklinga munu valda því að meðferðarheldni þeirra dalar eða fólk hættir jafnvel alveg á meðferð sem fyrirbyggir alvarlegri veikindi. Hér gætum við því verið að spara aurinn en kasta krónunni.

 

Öll erum við sammála um að við verðum að spara við okkur þegar kemur að heilbrigðisfjárfestingunni, ráðdeild er ávallt mikilvæg. Þegar farið er í niðurskurð er hins vegar mikilvægt að ganga ekki of nærri sér því hættan á bakreikningi er handan við hornið og er þá verr af stað farið en heima setið.

 

Við skulum notfæra okkur fræðin hvort heldur sem er læknisfræði eða heilsuhagfræði því þannig náum við mestu virði fyrir skattfé okkar sem ekki verður gert með blindum niðurskurði. Skynsemin verður að ráða. Við viljum ekki bakreikninga, sannreynd fræði gefa okkur besta niðurstöðu.

 

Höfundur er hæstaréttarlögmaður og er formaður Hjartaheilla á höfuðborgarsvæðinu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *