Konur og kransæðakrampi

Vilborg Sigurðardóttir

GoRed fyrir konur á Íslandi er alþjóðlegt átak til að vekja athygli á einkennum og áhættu hjarta- og æðasjúkdóma og er febrúar tileinkaður verkefninu. Þema þessa árs er „konur og kransæðakrampi“.

 

Vilborg SigurðardóttirDr. Vilborg Þ. Sigurðardóttir er sérfræðingur í hjartasjúkdómum og formaður GoRed fyrir konur á Íslandi.

 

Hjartasjúkdómar hafa verið í umræðunni í íslenskum fjölmiðlum, síðastliðið ár, með grípandi frásögnum af Íslendingum sem hafa fengið meðferð á samstarfssjúkrahúsi okkar í Gautaborg í Svíþjóð. Þar á meðal voru tvær konur, 12 ára stúlka sem fékk bráða kransæðastíflu og 39 ára móðir sem greindist með alvarlega hjartabilun í kjölfar meðgöngu og fór síðan utan í hjartaígræðslu. Samstaða og rausn okkar landsmanna lét ekki á sér standa og sýndi þjóðin samhug sinn í verki m.a. með því að veita ungu konunum góðan fjárhagslegan stuðning sem skipti þær verulegu máli. Með leyfi ungu stúlkunnar rita ég stutta frásögn með helstu atriðum er skipta máli varðandi einkenni og afdrif hennar.

 

„Einn góðan veðurdag í nóvember 2010 var 12 ára fimleikastúlka í skólasundi þegar hún fann fyrir skyndilegum þyngslum fyrir brjósti og miklu magnleysi. Hún reyndi að hvíla sig en einkennin ágerðust með ógleði og uppköstum og var hún flutt brátt á nærliggjandi sjúkrahús. Einkennin hraðversnuðu með alvarlegum hjartsláttartruflunum sem leiddu til blóðþrýstingsfalls og hjartað gat ekki lengur séð líkamanum fyrir nægilegu blóðstreymi. Hún var flutt á háskólasjúkrahúsið í Reykjavík og lögð í hjarta- og lungnavél til að sjá líkamanum fyrir nægilega súrefnisríku blóðstreymi. Í ljós kom að ein af höfuðkransæðum, sem umlykja hjartavöðvann, hafði rofnað og varð það þess valdandi að teppa varð á blóðstreymi til hjartavöðvans. Þetta leiddi til verulegrar skerðingar á hjartastarfseminni og unga stúlkan varð að fara í kransæðaþræðingu með víkkun til að koma á blóðflæðinu á ný. Næstu daga á eftir var ekki hægt að merkja bata á hjartanu og ákveðið var að flytja stúlkuna til Gautaborgar til frekari meðferðar þar sem að hjarta- og lungnavélin er eingöngu tímabundið úrræði. Hjartað fékk algera hvíld í hjarta- og lungnavélinni og náði stúlkan jafnt og þétt bata. Til allrar hamingju varð hjarta ungu stúlkunnar ekki fyrir varanlegum skaðað. Hún komst heim til Íslands á ný og stundar nú ötullega endurhæfingu en það skiptir ákaflega miklu máli eftir hjarta- og æðaáfall“.

 

Saga þessarar ungu stúlku er vart hægt að kalla dæmigerða vegna ungs aldurs. Það sem er þó dæmigert í sögu stúlkunnar eru einkennin og afleyðingar af lokun á blóðflæði um kransæðarnar sem eiga að næra hjartavöðvann.

Konur greinast að jafnaði 10 árum síðar en karlar með kransæðasjúkdóm. Eitt af lykilatriðunum er að þekkja einkennin, taka þeim alvarlega og bregðast skjótt við. Nýleg rannsókn Dr. Elisabet Perers sýndi að konur bíða lengur en karlar með að leita sér hjálpar vegna brjóstverkja. Í rannsókninni leituðu einungis 11% kvenna á bráðamóttöku innan 1 klukkustundar, sem eru mikilvæg tímamörk, miðað við 16% karla. Elisabet komst svo að orði í viðtali: „konur hugsa meira um hjarta eiginmanns síns en sitt eigið“. Elisabet benti einnig á að færri konur fara í kransæðamyndatöku eða víkkun, borið saman við karla. Í framhaldsrannsókn Ravn-Fischer á sama þýði frá 2004-7 voru einnig færri konur en karlar fluttar beint með sjúkrabíl á hjartadeild með brjóstverki (23% og 35%).

 

Meðferð kransæðasjúkdóms hjá konum getur þó verið vandasamari en hjá körlum. Rannsóknir hafa sýnt að segaleysandi meðferð leiðir oftar til blæðinga hjá konum. Rannsóknir sem liggja til grundvallar á meðferðinni byggjast á niðurstöðum úr hóprannsóknum sem karlar hafa verið þátttakendur í stórum meirihluta. Hugsanlegt er að mótsvarandi skammtar gagnist ekki konum. Svipaðar rannsóknir hafa einnig sýnt að greining með kransæðamyndatöku og kransæðavíkkun, í gegnum æðalegg, getur verið áhættusöm vegna smæðar kransæða og aukinnar tíðni kransæðakrampa hjá konum. Kransæðakrampi getur verið til staðar með eða án æðakölkunar. Hið síðarnefnda veldur sjaldan skaða á hjartavöðvanum, en allnokkur dæmi eru þó til um það. Greining og meðferð kransæðakrampa er ekki einföld. Í mörgum tilfellum gengur erfiðlega að bæla einkennin með lyfjum, sem eru svipuð einkennum bráðakransæðastíflu. Þetta leiðir oft til mikillar vanlíðan hjá konunni og kallar á tíðar komur á bráðamóttökur. Að þessu sögðu má áreiðanlega bæta árvekni og skilning heilbrigðisstarfsfólks á einkennum hjartasjúkdóma hjá konum.

 

Hjartadrottningarnar hjá Hjartaheillum er nýlega stofnaður stuðningshópur fyrir konur með hjartasjúkdóma. GoRed og samstarfsaðilar átaksins hvetja konur með hjartasjúkdóma til að leita stuðnings og ráða hjá Hjartadrottningunum um það hvernig hægt er að lifa með hjartasjúkdóm og vera virkur þátttakandi í að ná bata.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *