Góður árangur endurlífgana

Hlutfall þeirra sem lifa af og útskrifast af Landspítala eftir hjartaendurlífgun er með því hæsta sem gerist í heiminum. Íslendingar eru vel upplýstir um fyrstu hjálp að sögn Brynjólfs Mogensen yfirlæknis. Kælingarhlutfall, stuttur útkallstími og algengi farsíma skiptir máli.

 

Árangur af endurlífgunum utan sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu á árunum 2004-2007 var umfjöllunarefni erindis sem flutt var á vísindaþingi skurð-, svæfingar og gjörgæslulækna dagana 1. til 2. apríl. Brynjólfur Mogensen, yfirlæknir á bráðasviði Landspítala, kom að rannsókninni, sem leiddi margt áhugavert í ljós.


„Af þeim sjúklingum sem komust lifandi á Landspítala eftir endurlífgun vegna hjartaáfalls útskrifaðist fjórðungur lifandi. Það er betri árangur en í nánast öllum öðrum löndum, þar sem árangurinn er yfirleitt tíu til fimmtán prósent,“ segir Brynjólfur og bætir við að leitun sé að öðrum eins árangri.

 

Ástæður þessa góða árangurs eru margþættar að mati Brynjólfs. Hann nefnir stuttan útkallstíma, gott starfsfólk á neyðarbíl, algengi farsímaeignar Íslendinga sem stytti  boðunarkerfið og góða þjónustu á Landspítala. „Til dæmis var á þessum tíma farið að kæla niður sjúklinga sem lentu í hjartaáfalli.

 

Það breytti meðferðinni til hins betra og minnkaði auk þess líkur á heilaskemmdum hjá þeim sem lifa,“ segir Brynjólfur og bætir við að ein af afleiðingum hjartaáfalls geti verið skortur á súrefni til heila, sem geti leitt til heilaskemmda.

Þá var einnig komið á hjartaþræðingarvakt. Eitt höfuðatriðið í hinum góða árangri er einnig hátt hlutfall grunnendurlífgunar, en í 62 prósentum tilvika reyndu sjónarvottar endurlífgun fyrir komu neyðarbíls.

 

„Grunnendurlífgun á Íslandi er með því hæsta sem gerist í heiminum,“ segir Brynjólfur. Hann telur Íslendinga vel upplýsta um fyrstu hjálp og það verði til þess að auðvelda endurlífgun og auka hlutfall þeirra sem lifi.

 

Brynjólfur segir að rannsóknin hafi verið gerð yfir tímabil þar sem náið samstarf hafi verið milli læknis á neyðarbíl og sjúkraflutningsmanna.


Í byrjun árs 2008 var ákveðið að fella þá þjónustu niður og því var ekki lengur læknir í

neyðarbílnum.“ Hann segir ekki vitað hvort árangurinn hafi breyst við breytinguna. „Sjúkraflutningaaðilar á höfuðborgarsvæðinu eru vel menntaðir og margir hafa farið í framhaldsnám og kunna sitt verk. Rannsókn mun leiða í ljós hvort við breyttum rétt.“ solveig@frettabladid.is


Af 290 einstaklingum í hjartastoppi var reynd endurlífgun hjá 280. Af þeim 193 tilvikum þar sem hjartasjúkdómur var talinn orsök voru karlar 75%, konur 25% og meðalaldur var 65,1 ár. Lifandi á sjúkrahús komust 108 sjúklingar (56%) og 49 (25,4%) útskrifuðust af sjúkrahúsi. Í 62% tilvika var grunnendurlífgun beitt fyrir komu neyðarbíls.

 

Fréttablaðið þriðjudaginn 5. apríl 2011 blaðið

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *