Nýtt kerfi og þak á greiðslur

Fulltrúar Þuríður Backman, Margrét Tryggvadóttir, Siv Friðleifsdóttir, Jónína Rós

„Í minni tíð sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipaði ég nefnd til þess að gera tillögur um réttlátari, einfaldari og gagnsærri þátttöku einstaklinga í kostnaði vegna lyfja og annarrar heilbrigðisþjónustu,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson á þingflokkafundi SÍBS í gær.

 

Fulltrúar Þuríður Backman, Margrét Tryggvadóttir, Siv Friðleifsdóttir, Jónína Rós

Fulltrúar allra þingflokka svöruðu spurningum sem fulltrúar SÍBS, Sigmar B. Haukson frá Astma- og ofnæmisfélaginu, Birgir Gunnarsson, forstjóri Reykjalundar, og Ásgeir Þór Árnason, framkvæmdastjóri Hjartaheilla, höfðu sent til þingmanna. Ein spurninganna var hvort hagræðing í heilbrigðiskerfinu ætti að koma niður á lífsgæðum sjúklinga og hvort núgildandi reglugerðir um skerðingu og takmarkanir á greiðsluþátttöku sjúklinga yrðu teknar til  ndurskoðunar.

 

Þak á hámarksgreiðslur
Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði mikilla tíðinda að vænta við endurskoðun á lyfjakostnaði og hugmyndir væru uppi um að allir sjúklingar færu í sama pott. Sérstakt þak yrði sett á hámarksgreiðslur, sem byggðist á réttlætiskerfi að danskri fyrirmynd. „Framsóknarmenn styðja að farið verði yfir reglur um greiðsluþátttöku á lyfjum með heilsuhagfræðileg rök að leiðarljósi.“

 

Jónína Rós Guðmundsdóttir, þingmaður Samfylkingar, benti á að frumvarp væri nú í nefnd þar sem tekið væri á leiðum til einföldunar á kerfinu og verið væri að skoða greiðsludreifingu vegna lyfja.

 

Þuríður Backman, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, sagði að markmiðið með frumvarpinu væri að koma á nýju greiðsluþátttökukerfi að danskri fyrirmynd þar sem greiðsluþátttaka sjúkratrygginga væri óháð sjúkdómsgreiningu.

 

Reykjalundur á þriðja ári í niðurskurði

Forsvarsmenn stjórnarflokkanna voru beðnir að svara til um áform ríkisstjórnarinnar varðandi sparnað í heilbrigðisþjónustu á árunum 2012 og 2013 og þá sérstaklega í því ljósi að Reykjalundur er á þriðja ári í niðurskurði. Búið væri að skera niður um tæplega 300 milljónir og fækka um þrjátíu stöðugildi sem næmi um 16% mannafla. Í upphafi hefði verið boðaður niðurskurður í fjárlögum í fimm ár sem þýddi að enn væru tvö ár eftir.

 

Jónína Rós Guðmundsdóttir viðurkenndi að óviðunandi væri að taka ákvarðanir um fjárlög í desember á ári hverju og að mikill áhugi væri hjá mörgum þingmönnum á að breyta verkferlum í fjárlagagerð. „Það er verið að skoða hvaða áhrif kjarasamningar hafa,“ sagði Jónína.

 

Þuríður Backman tók í sama streng og sagði að unnið væri að breytingum á öllum verkferlum í fjárlagakerfinu. „Verkferlar um tilfærslu á tímasetningu á framkvæmd fjárlaga eru í vinnslu,“ sagði hún en tók fram að engu væri hægt að lofa í þessum efnum.

 

Þvinga þarf fjárlagavinnuna framar

Þingmenn stjórnarandstöðu tóku þátt í umræðunni. Guðlaugur Þór sagði mikilvægt að vanda fjárlagagerð og skilgreina þyrfti fyrst og fremst þá þjónustu sem ætti að veita. Síðan þyrfti að vanda til samninga við stofnanir. Guðlaugur sagði að hlutverk Sjúkratrygginga Íslands hefði ekki verið eins og lagt hefði verið upp með í upphafi og vísaði í reglugerð um hlutverk Sjúkratrygginga Íslands. 

 

Siv Friðleifsdóttir sagði að hægt hefði verið að hagræða án skerðingar á þjónustu. „Mjög erfitt er að hagræða þegar fjárlögin koma svona seint fram þar sem 70% af útgjöldum eru laun. Þvinga þarf fjárlagavinnuna framar og taka ákvörðun um að sameina stofnanir,“ sagði Siv.

 

Morgunblaðið miðvikudaginn 1. júní 2011 blaðið

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *