
Alþjóða blóðgjafadagurinn er haldinn hátíðlegur í dag til heiðurs öllum þeim er hafa séð sér fært um að hjálpa öðrum með blóðgjöf. Samhliða þessum hátíðarhöldum er þess minnst að hinn 16. júlí næstkomandi eru 30 ár liðin frá stofnun Blóðgjafafélags Íslands.
„Íslendingar eru gjafmildir þegar kemur að blóðgjöf. Við erum með um 15 þúsund blóðgjafir á ári og á bilinu níu til tíu þúsund manns gefa blóð reglulega,“ segir Ólafur Helgi Kjartansson, formaður Blóðgjafafélags Íslands og sýslumaður á Selfossi.
Mikil áhersla er lögð á nýliðun og hvetur Ólafur Helgi því fólk til að taka þátt og gefa blóð.
Hátíðarhöldin fara fram í húsnæði Blóðbankans við Snorrabraut 60 í Reykjavík. Vert er að nefna að tónlistaratriði og veitingar eru í boði fyrir blóðgjafa sem og aðra gesti. Hátíðarhöldin munu standa til kl. 17 í dag.
Alþjóða blóðgjafadagurinn er samvinnuverkefni Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar, Alþjóða Rauða Krossins, Alþjóðasamtaka blóðgjafafélaga og Alþjóðasamtaka blóðgjafar.
mbl.is þriðjudaginn 14. júní 2011