
Hönnuðurinn Sigga Heimis, stóð fyrir nýstárlegri sýningu á Menningarnótt í ár. Undanfarin fimm ár hefur hún unnið að verkefni með einu þekktasta glerlistasafni heims, Corning glerlistasafninu í New York. Verkefnið, sem hófst sem tilraun með form og efni, þróaðist út í að blása hin ýmsu líffæri mannsins í gler. Að sögn Siggu varð verkefnið til þess að hún fór að kynna sér ástand líffæragjafar í heiminum, og komst að því að það er skelfilegt. Allt of fáir gerast líffæragjafar, fólk deyr á biðlistum og í sumum löndum tíðkast svartamarkaðsbrask með líffæri.
Til að vekja athygli á þessu, og tengja þannig hönnun og áríðandi málefni, þá voru líffærin til sýnis á Menningarnótt í Netagerðinni að Mýrargötu 14 (gamla Liborius verslunin gegnt Slippnum), en þau verða síðan boðin upp núna á þriðjudaginn þann 23. ágúst kl. 20. á sama stað. Andvirði hjartans fer til Hjartaverndar, andvirði tveggja blóðkorna til Krabbameinsfélagsins og andvirði auga til Umsjónarfélags Einhverfra. Allir eru velkomnir, heitt verður á könnunni og munu Ragna Árnadóttir (fyrrum dómsmálaráðherra) og Sindri Sindrason (fréttamaður) stýra uppboðinu.