Sprækur á Esjunni

Gönguhópurinn: Ragnhildur Rúnarsdóttir, Guðlaug Hildur Birgisdóttir, Unnur Birgisdóttir, Kjartan Birgisson, Gylfi Birgisson, Hildur Kjartansdóttir og Svandís Kristiansen.

Gönguhópurinn: Ragnhildur Rúnarsdóttir, Guðlaug Hildur Birgisdóttir, Unnur Birgisdóttir, Kjartan Birgisson, Gylfi Birgisson, Hildur Kjartansdóttir og Svandís Kristiansen.Laugardaginn 27. ágúst s.l. var ár síðan Kjartan Birgisson vaknaði að morgni með nýtt hjarta, en myndrík frásögn af hjartaskiptunum birtist í Sunnudagsmogganum. 

Þá hafði Kjartan verið sjúklingur árum saman, lítið getað hreyft sig fyrir mæði og farið í fjölda hjartaaðgerða. 

Ári síðar er Kjartan sjálfum sér líkur, góða skapið enn til staðar, en lífsskilyrðin hafa breyst mikið. 

Hann var beðinn um að lýsa deginum sem hann hélt upp á að ár var liðið frá hjartaskiptunum.

 

9.00 Vakna, framundan er stór dagur. Það var fyrir nákvæmlega einu ári sem ég fékk nýtt hjarta. Framundan er að ganga á Þverfellshorn Esjunnar í tilefni tímamótanna.

9.45 Morgunmatur hjá Laulau systur minni. Hún heitir Guðlaug Hildur, en er jafnan kölluð Laulau. Þetta er öðrum þræði orkusöfnun, en líka dekrað við bragðlaukana með soðnu eggi og kavíar, rúnnstykki og svo auðvitað kaffi.

 
10.30 Hópurinn kemur saman við Mógilsá. Mættir eru Hildur dóttir mín, Laulau systir mín og dóttir hennar hún Ransí, Unnella systir mín, Gylfi bróðir minn og Svandís mágkona mín.

11:00 Lagt af stað upp á Þverfellshornið, glaðbeittur hópur með markmiðið á hreinu. Göngum hægt en örugglega.

12.00 Æjum í smáberjamó og setjum hælsærisplástur á einn hæl.

 
13.00 Kominn upp að steini, allir glaðir en æfingaskortur farinn að segja til sín hjá sumum. Múgæsingur verður til þess að allir nema einn halda áfram upp á toppinn.

13:20 Ég kem fyrstur á toppinn því ferðafélagar mínir eru að aðstoða breska fjölskyldu. Þvílík gleði að vera kominn upp, brosi allan hringinn og skrái áfangann í gestabókina á hringsjánni. Líkaminn ótrúlega sprækur og ég hefði alveg getað gengið lengra.

 
13.30 Leggjum af stað niður og fáum okkur nesti við mýrina á leið niður. Þreytan fer að segja til sín á niðurleiðinni og þá verð ég feginn að gangan er þó ekki lengri en þetta.

 

15.00 Komum niður að bílastæði alsæl með gönguna, þreytt en glöð.

 

15.30 Komum heim, ég og Hildur, til Maríu dóttur minnar sem var lasin heima, hafði verið í hálskirtlatöku í fyrradag. Framundan er að hvíla sig vel og undirbúa komu harðsperranna.

 

Almennt hef ég reynt að hreyfa mig í sumar, farið í stutta göngutúra um Elliðaárdalinn og golf á Korpúlfsstaðavelli, þar sem ég á erfitt með að ganga Grafarholtið. Svo tók ég þátt í Reykjavíkurmaraþoninu og hljóp 10 kílómetra. Það var rosalega gaman, en gefur Esjugöngu lítið eftir hvað áreynsluna varðar.

 

Svo hef ég varið lausum stundum á skrifstofu Hjartaheillar, þar sem ég vinn að málefnum líffæraþega, hvort sem það eru hjarta, lungu eða nýru. Ég reyni að vekja umræðu um þau mál, þannig að fólk sé meðvitað um stöðu fólks sem á við þann vanda að etja og hvað það er dýrmætt ef fólk skráir sig sem líffæragjafa.

 
19.00 Í fjarveru húsmóðurinnar Halldóru, sem er í Rangæingaferð með móður sinni, sér Hildur um að matreiða góðan kvöldverð.

20.00 Slakað á um kvöldið eftir gönguna. Ég er ekki burðugur í samkvæmislíf eftir átök dagsins.

 
23.00 Góðum degi lýkur og rétt að fara að sofa.

 

Morgunblaðið sunnudaginn 4. september 2011

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *