
Á morgun fimmtudaginn 29. september verður haldinn Alþjóðlegur hjartadagur um víða veröld með ýmsum uppákomum.
Að Hjartadeginum á Íslandi standa Hjartavernd, Hjartaheill, Heilaheill og Neistinn og ákváðu þessi samtök að beina sjónum sínum að ungu fólki í ár.
Því fengum við til samstarfs við okkur Þórunni Clausen leik- og söngkonu og tvo skóla, Seljaskóla og Menntaskólann í Kópavogi sem ætla halda Hjartadag á morgun með ýmsum viðburðum. Þó verður mun viðameiri dagskrá í MK en Seljaskóla.
Full ástæða er til að ná til ungs fólks þar sem hjarta- og æðasjúkdómar byrja oftar en ekki að grafa um sig á unga aldri en með heilbrigðum lífsháttum er hægt að verjast þeim.
Nánar um dagskrá:
09:00 Sunnusalur Menntaskólans í Kópavog: Þórunn Clausen hefur tekið að sér að vera með erindi fyrir unga fólkið og síðan í Seljaskóla fyrir 10 bekkinga. Þórunn þekkir vel til þessa sjúkdóma en maður hennar Sjonni dó sviplega vegna heilaáfalls síðasta vetur. Þórunn ætlar þó ekki síst að tala út frá sinni reynslu og sinni heilsu en fyrir nokkrum árum fékk hún heilaáfall sem rakið er til meðfædds hjartagalla. Þórunn náði sem betur fer fullri heilsu en hún hefur áhuga á að miðla sinni reynslu til unga fólksins og vekja það til um hugsunar um hvernig á að bregðast við slíkum skyndilegum áföllum. Einnig verða á staðnum tveir hjúkrunarfræðingar með mikla reynslu að þessum sjúkdómum.