Hjartahlýja og góðsemi

Alþjóðlegur hjartadagur Þórunn Erna Clausen greindi nemendum frá reynslu sinni í tilefni dagsins.

Alþjóðlegur hjartadagur Þórunn Erna Clausen greindi nemendum frá reynslu sinni í tilefni dagsins.Rétt viðbrögð geta bjargað mannslífi.

Alþjóðlegur hjartadagur Þórunn Erna Clausen greindi nemendum frá reynslu sinni í tilefni dagsins.

 

»Ég vil gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að vera hérna,« sagði Þórunn Erna Clausen, söng- og leikkona, við nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi í gærmorgun í tilefni Alþjóðlega hjartadagsins.

  

Þórunn áréttaði við unga fólkið að heilablóðfall gerði ekki endilega boð á undan sér og þó að flestir væru værukærir og hugsuðu með sér að þeir væru ekki í hættu gætu allir fengið hjartasjúkdóma. Einnig ungt fólk. Hún hefði til dæmis fengið heilaáfall fyrir tveimur og hálfu ári vegna meðfædds hjartagalla og eiginmaðurinn Sigurjón Brink eða Sjonni hefði fallið frá vegna heilaáfalls snemma á líðandi ári, en hann var aðeins 36 ára. Þau hefðu verið vel á sig komin, hraust og ekki verið í áhættuhópi, en hann hefði dáið og hún verið hætt komin.

Svimi einkenni
Heilsusamlegt líferni er alltaf af hinu góða og reglulegt eftirlit með heilsunni skiptir miklu máli. Þórunn sagði krökkunum að hún hefði fundið fyrir miklum svima og átt erfitt með að standa í fæturna. Hins vegar hefði hún alltaf verið mikið hörkutól og því ekki látið svimann slá sig út af laginu. Samt hefði henni ekki staðið alveg á sama og hringt í móður sína. Meðan á samtalinu hefði staðið hefði tungan lamast og hún misst málið. »Ég vissi nákvæmlega hvað hafði komið fyrir mig og hugsaði: Ég er 33 ára gömul. Af hverju er ég að fá heilablóðfall?« Hún sagði að fólk ætti að gera ráðstafanir við slíkar aðstæður. Fólk ætti líka að vera meðvitað um einkennin því rétt viðbrögð gætu bjargað mannslífi.

 

Þórunn sagðist hafa lært mikið af áföllunum. Hún hefði örugglega fundið fyrir hjartagallanum alla tíð en ekki hlustað. Hún hefði farið í hjartaaðgerð og væri stálslegin eftir, gæti gert allt og væri störfum hlaðin.
Lagið »Aftur heim« eftir Sjonna og Þórunni var framlag Íslendinga til Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í Düsseldorf í Þýskalandi í maí. Þórunn minnti á að boðskapur lagsins væri sá að lífið væri ekki endalaust. Því mætti ekki gleyma og mikilvægt væri að sýna góðvild. Alltaf. Hún hefði fengið viðvörun og þau Sjonni hefðu tekið mjög mikið mark á henni. »Við áttum rosalega góðan tíma saman,« sagði hún.

 

Morgunblaðið föstudaginn 30. september 2011

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *