Alþjóðlegur hjartadagur var haldinn 29. september s.l. Hjartavernd, Hjartaheill, Heilaheill og Neistinn standa að deginum á Íslandi og ákváðu samtökin að höfða til ungs fólks í ár með það í huga að hjarta- og æðasjúkdómar byrja oftar en ekki að grafa um sig á unga aldri en með heilbrigðum lífsháttum má verjast þeim. Samtökin fengu Menntaskólann í Kópavogi og Seljaskóla í samstarf með sér og var viðamikil dagskrá í skólunum í gær. Þórunn Clausen ræddi um reynslu sína, nemendum var boðið upp á blóðþrýstingsmælingu og farið var yfir helstu áhættuþætti æðakölkunar og kransæðasjúkdóma. »Hreyfing er lykilatriði góðrar heilsu,« sagði Bylgja Valtýsdóttir hjá Hjartavernd við ungmennin.
Morgunblaðið 30. september 2011