Tilvísanakerfi gegn kostnaði

Svör Pétur Blöndal, Siv Friðleifsdóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Birgitta Jónsdóttir og Álfheiður Ingadóttir.

Svör Pétur Blöndal, Siv Friðleifsdóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Birgitta Jónsdóttir og Álfheiður Ingadóttir. Áhyggjur af auknum sérfræðikostnaði í kjölfar niðurskurðar – Taki heilsugæslu úti á landi til fyrirmyndar – Ætlað samþykki líffæragjafa viðkvæmt – Réttindagæsla sjúklinga verði aukin

 

„Við sjáum stöðug merki um skerta þjónustu, líklega vegna niðurskurðar á sjúkrahúsunum. Þar færðist þjónustan til og þá í dýrari úrræði,“ sagði Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks og fyrrum heilbrigðisráðherra, á þingflokkafundi SÍBS sem haldinn var í gær. Fulltrúar allra þingflokka sátu fundinn sem SÍBS boðaði til í leit að viðbrögðum við tillögum þeirra um aðgerðir í heilbrigðismálum, sem lagðar hafa verið fyrir þingflokksfulltrúana af fulltrúum SÍBS, Sigmari B. Haukssyni frá Astma- og ofnæmisfélaginu og Ásgeiri Þór Árnasyni, framkvæmdastjóra Hjartaheilla.

 

Fulltrúar þingflokkanna voru: Pétur H. Blöndal fyrir Sjálfstæðisflokk, Siv Friðleifsdóttir fyrir Framsóknarflokk, Jónína Rós Guðmundsdóttir fyrir Samfylkingu, Birgitta Jónsdóttir fyrir Hreyfingu og Álfheiður Ingadóttir fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð.

 

Þingmönnunum varð tíðrætt um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu þegar þeir ræddu þær tillögur SÍBS að skoða áhrif af sparnaði á einu sviði heilbrigðiskerfisins á önnur svið þess og hvernig efla mætti heilsugæslu þar sem lögð yrði áhersla á að taka nágrannaþjóðirnar til fyrirmyndar með þverfaglegu teymi heilbrigðisstétta til að þjónusta einstaklinginn.

 

Pétur sagði nauðsynlegt að mótuð yrði stefna í heilbrigðismálum og henni fylgt en þar þótti honum nokkuð vanta á.

 

Álfheiður sagðist styðja hugmynd SÍBS um skoðun afleiðinga niðurskurðar en óttaðist áhrif áframhaldandi niðurskurðar og að „þá muni heilbrigðisþjónustan flytjast úr dýrari úrræðum í einkarekstur“.

 

Sóun í kerfinu
Þingmenn úr stjórnarflokkunum, ásamt þingmönnum Framsóknarflokksins og Hreyfingar virtust sammála um að leggja ætti áherslu á að heilsugæslan væri fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Var í því sambandi komið inn á valfrjálst tilvísanakerfi til að draga úr kostnaði.

 

Siv sagði að það yrðu að vera hliðverðir þar sem annars væri sóun í kerfinu og vísaði hún meðal annars til niðurstaðna úttektar ráðgjafarfyrirtækisins Boston Consulting Group á kerfinu. „Í dag getur fólk farið beint til sérfræðinga og látið ríkið borga meginhluta reikningsins. Það er mjög óeðlilegt.“

 

Siv sagði ljóst að það væri almenn samstaða meðal þingflokkanna um upptöku slíks kerfis ef frá væri skilinn einn flokkur. Er ljóst að þar var átt við Sjálfstæðisflokkinn.

 

Jónína Rós vísaði til landsfundarsamþykktar Samfylkingarinnar um að beita ætti þjónustustýringu í heilbrigðiskerfinu. Hún sagði heilsugæsluna úti á landi standa sig mjög vel og benti á að þar mætti taka landsbyggðina til fyrirmyndar. „Það er svo merkilegt að sjá hvernig heilsugæslan og þessi þverfaglega samvinna virkar miklu betur á heilsugæslustöðvum úti á landi.“

 

Pétur H. Blöndal, Sjálfstæðisflokki, sagðist alveg geta tekið undir tillögu um eflingu heilsugæslu enda ætti hún að jafnaði að vera fyrsta ráðgjöf til einstaklingsins. Hann vildi þó ekki taka val af fólki og væri ekki endilega viss um að heilsugæslan væri ódýrari kostur en sérfræðingur. „Í einhverjum tilfellum er hún jafnvel dýrari en sérfræðingarnir,“ sagði Pétur. Þessu mætti stýra með kostnaðarþátttöku almennings.

 

Ætlað samþykki líffæragjafar
„Ég er á móti því að ríkið taki ákvarðanir fyrir einstaklinga,“ sagði Pétur en óskað hafði verið eftir að þingflokkarnir tækju afstöðu til þeirrar tillögu SÍBS að sett yrðu lög um ætlað samþykki fyrir líffæragjöfum úr látnum gjafa. Pétur hvatti hins vegar til þess að kerfið yrði einfaldað svo fólk gæti skráð samþykki sitt sem víðast ef það vildi.

 

Siv sagði að þingflokkur framsóknarmanna væri jákvæður gagnvart hugmyndum um ætlað samþykki. Sjálf væri hún að undirbúa að flytja slíkt mál en menn yrðu að gera það upp við sig sjálfir hvort þeir vildu gefa líffæri og þá ætti að gefa kost á að afskrá sig.

Fulltrúar stjórnarflokkanna, Jónína Rós og Álfheiður, sögðu mikilvægt að málið yrði rætt opinskátt opinberlega. Jónína Rós benti á að þingmenn Samfylkingar væru hlynntir því að afstaða fólks til líffæragjafar væri merkt í ökuskírteini. Það mál biði nú afgreiðslu eftir að hafa verið flutt á þinginu. Álfheiður sagði mikilvægt að auka skilning á líffæragjöf en slík ákvörðun væri oft erfið aðstandendum. „Menn upplifa það oft sem óþolandi þrýsting á hvorn veginn sem ákvörðun er tekin. „Kanna þyrfti hvernig löggjöf um ætlað samþykki hefði reynst, þar sem hún hefði verið tekin upp á Norðurlöndunum og í Evrópu. Birgitta tók undir það og sagðist tilbúin að styðja tillögu Samfylkingar um merkingar í ökuskírteini.

 

Morgunblaðið miðvikudaginn 16. nóvember 2011

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *