
Davíð Þór Linker, hjartalæknir og verkfræðingur við Washington-háskólann í Seattle í Bandaríkjunum, hefur þróað nýjan sírita til að skrá rafræna virkni hjartans utan spítala. Búnaðurinn auðveldar greiningu gáttatifs og talið er að hann eigi eftir að skipta miklu máli í framtíðinni.
Gáttatif (e. atrial fibrillation) einkennist af óskipulagðri rafvirkni í gáttum og er algengasta hjartsláttartruflunin sem þarf að meðhöndla. Það getur valdið ýmsum óþægindum og jafnvel hjartabilun, ef ekki er brugðist við í tíma. Algengustu einkennin eru hjartsláttaróþægindi, minna úthald og mæði, en einkennin geta líka verið lítil eða engin.
Ólíku saman að jafna
Davíð Þór bendir á að þar sem gáttatif geti verið ósamfellt sé erfitt að greina það, en það geti fimmfaldað hættuna á heilablóðfalli sé ekkert að gert. Vandamál við núverandi búnað til að greina gáttatif sé annars vegar stærð hans og þyngd og hins vegar tíminn sem greiningin taki. Almennur búnaður sé á stærð við spilastokk og vegi 120-180 g þótt til sé 60 g búnaður. Hann sé festur við belti eða á annan hátt og tengdur líkamanum í gegnum rafskaut sem fest er á brjóstkassann. Skipta þurfi um rafhlöðu á um þriggja daga fresti og fari viðkomandi einstaklingur í bað, sturtu eða sund þurfi hann að aftengja búnaðinn. Að mælingum loknum séu niðurstöðurnar greindar í tölvu. Greiningin sé tímafrek og ónákvæm.
„Mitt tæki er um 10,5×3,2 sm að stærð og vigtar fimm grömm,“ segir Davíð Þór. Hann segir að það sé vatnshelt, fest við húðina eins og plástur, safni gögnum í eina til fjórar vikur án þess að skipta þurfi um rafhlöðu, sé mun nákvæmara en önnur tæki og aðeins taki nokkrar sekúndur að fá niðurstöður. Kostnaðurinn sé mun minni en áður og árangurinn betri. „Ég kalla þennan búnað tæki þessarar aldar rétt eins og núverandi búnaður er tæki fyrri aldar,“ segir hann.
Orsakir gáttatifs geta verið margvíslegar en hættan eykst með aldri, sykursýki hefur áhrif, kransæðasjúkdómar og háþrýstingur svo dæmi séu tekin. Davíð Þór segist hafa byrjað á hönnun sinni 2004 og síritinn sé í raun enn í þróun en gera megi ráð fyrir að hann verði viðurkenndur í Bandaríkjunum á næsta ári. Það skipti sköpum því um 18% allra heilablóðfalla séu vegna gáttatifs og 12% til viðbótar geti verið það án þess að greining liggi fyrir.
Morgunblaðið fimmtudaginn 15. desember 2011