Þræða hjartalokuna í gegnum æð

Hjartaaðgerðir Kristján Eyjólfsson yfirlæknir hjartaþræðinga á Landspítalanum gerir nú nýjar hjartalokuaðgerðir með þræðingu í gegnum æð frá nára.

Hjartaaðgerðir Kristján Eyjólfsson yfirlæknir hjartaþræðinga á Landspítalanum gerir nú nýjar hjartalokuaðgerðir með þræðingu í gegnum æð frá nára.

í fyrsta skipti framkvæmt hérlendis í vikunni.

Fjórar aðgerðir þar sem hjartalokur eru settar inn með þræðingartækni hafa verið gerðar á Landspítalanum í þessari viku. Þessar aðgerðir hafa aldrei verið gerðar hér á landi áður en verða vonandi gerðar hér framvegis að sögn Kristjáns Eyjólfssonar, yfirlæknis hjartaþræðinga hjá LSH.

 

„Þetta er tækni sem er að þróast í heiminum og við reynum að fylgjast með. Hér hefur verið einn danskur sérfræðingur okkur innan handar, Lars Söndergaard sem er yfirlæknir á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn. Hann er mjög reyndur í þessu og okkur til halds og trausts,“ segir Kristján.

 

Söndergaard talaði á Læknadögum í gær þar sem hann sagði frá ósæðarlokuviðgerð með þræðingartækni.

 

Pressuð og þrædd til hjartans
Spurður hvernig þessi aðgerð fari fram segir Kristján að hjartalokan sé pressuð saman í sex millimetra rör í ísköldu vatni en við það breytist málmurinn. Þá er skorinn rúmlega sentímetra skurður í náranum á sjúklingnum og hjartalokan þrædd þaðan upp í gegnum æð til hjartans. Til að fá leiðsögn um hvar staðsetning lokunnar á að vera er notuð gegnumlýsing og myndataka. Hjartalokan þenst svo út þegar hún er komin á sinn stað.

 

Þessar aðgerðir taka skemmri tíma en venjulegar hjartalokuaðgerðir og sjúklingurinn er fljótari að jafna sig því hann er ekki með skurð á bringunni né sagað bringubein. Aðgerðin er ekki áhættulaus, frekar en aðrar aðgerðir, en ef vel tekst til reynist hún sjúklingnum auðveldari eftir á.

 

Fyrir aldraða sjúklinga
„Þessi aðgerð er ætluð sjúklingum sem vegna aldurs, annarra sjúkdóma og oft fyrri aðgerða geta ekki farið í opna skurðaðgerð vegna áhættunnar sem er þá orðin mjög mikil. Þetta er fólk sem er komið með þrengingu á hátt stig og er yfir áttrætt, fólkið er þá sjálft hikandi við að fara í aðgerð og skurðlæknarnir hikandi við að taka það í aðgerð.

 

Þrír af þessum fjórum sjúklingum sem við höfum nú þrætt hjartalokur í fóru í kransæðaaðgerðir þegar þeir voru yngri. Svo eru þeir allir aldraðir svo að áhættan við hefðbundna skurðaðgerð væri töluvert mikil. Því er boðið upp á þessa aðgerð. Það er viss áhætta sem fylgir öllum aðgerðum en ef allt gengur vel jafnar sjúklingurinn sig fyrr.“

 

Kristján segir opna skurðaðgerð enn notaða á yngra fólk og þá sem þola slíka aðgerð. „Við erum mjög ánægðir með hvað þetta hefur gengið vel og hvað allir hafa staðið sig vel í þessu. Við vitum ekki alveg hvað við eigum eftir að gera margar svona þræðingar að meðaltali á ári en við sláum á að þetta geti orðið 10 til 12 aðgerðir á ári.“

 

Morgunblaðið miðvikudaginn 18. janúar 2012

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *