Hjartahnoðið er mikilvægast

Sjálfvirk rafstuðtæki er hægt að kaupa af félagasamtökum eða hópum og kosta allt niður í 250 þúsund krónur,“ segir Felix Valsson, svæfingalæknir og formaður endurlífgunarráðs. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Sjálfvirk rafstuðtæki er hægt að kaupa af félagasamtökum eða hópum og kosta allt niður í 250 þúsund krónur,“ segir Felix Valsson, svæfingalæknir og formaður endurlífgunarráðs. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁNFelix Valsson, formaður Endurlífgunarráðs Íslands, kynnti helstu nýjungar í endurlífgun á hádegisfundi á Læknadögum. Áhersla er lögð á hjartahnoð. Sjálfvirk hjartastuðtæki verði sem aðgengilegust og verið er að athuga að skrá staðsetningu þeirra á kortavef ja.is.

 

„Helsta breytingin frá fyrri leiðbeiningum er sú að gífurleg áhersla er lögð á mikilvægi hjartahnoðs en minni á að blása í fólk,“ segir Felix Valsson, svæfinga- og gjörgæslulæknir og formaður Endurlífgunarráðs Íslands, sem kynnti helstu nýjungar í endurlífgun á Læknadögum í síðustu viku. Leiðbeiningar um endurlífgun eru í sífelldri endurskoðun og á fimm ára fresti gefur Alheimssamband endurlífgunarfélaga út nýjar leiðbeiningar út frá niðurstöðum rannsókna á viðfangsefninu. Nú síðast voru nýjar leiðbeiningar gefnar út í lok árs 2010.

 

„Til að greina hjartastopp þarftu aðeins að sjá að sjúklingur sé meðvitundarlaus (svarar ekki kalli eða áreiti) og að hann andi ekki eða andi óeðlilega. Þá er fyrsta skref að hringja á Neyðarlínuna 112 og gefa greinagóð svör um staðsetningu og ástand og byrja síðan strax að hnoða,“ útskýrir Felix en mikil áhersla er lögð á að ekki sé hægt að gera neitt rangt í hjartahnoði. „Betra er að reyna en að reyna ekki, þá skiptir ekki máli hvort þú brýtur rifbein eða bringubein,“ segir Felix og ítrekar að leikmenn þurfi ekki að hugsa um öndunina á þessu stigi. „Með hjartahnoði er verið að dæla blóði til heilans og í því er súrefni,“ segir hann. Hnoðið á að vera djúpt, um fimm til sex sentímetrar og hnoða um hundrað sinnum á mínútu. „Á vefnum er að finna skemmtilegt myndband af leikaranum Vinnie Jones þar sem hann hnoðar mann í takt við lagið Staying Alive,“ bendir hann á.

 

Aðrar breytingar í hinum nýju leiðbeiningum er að áhersla er lögð á að gera hjartastuðtæki aðgengileg og sýnileg. „Við erum nú að hefja samstarf við ja.is þar sem ætlunin er að skrásetja öll hjartastuðtæki þannig að hægt sé að finna þau með kortavef ja.is. Í framtíðinni gæti þannig 112 veitt þeim sem hringir inn upplýsingar um hvar næsta hjartastuðtæki er að finna ef langt er í að hjálp berist. Felix bendir einnig á að notkun sjálfvirkra rafstuðstækja sé afar einföld og að tækið gefi raddstýrðar leiðbeiningar um hvað eigi að gera og leggur mikla áherslu á að eins og með hnoðið sé ekki nein hætta á að fólk valdi skaða með að nota rafstuðstækin.

 

Einnig er lögð áhersla á rétta eftirmeðferð á sjúkrahúsi sem snýst um að kæla meðvitundarlausa sjúklinga. „Þar stöndum við mjög framarlega því strax árið 2002 byrjuðum við að kæla sjúklinga sem lent höfðu í hjartastoppi, og vorum þannig með þeim fyrstu sem beittu þessari aðferð,“ segir Felix og bendir á aðra nýjung. „Við höfum verið að prófa hjartahnoðtæki á spítalanum og í sjúkrabílum í Reykjavík og á Akureyri. Slík tæki sjá um hnoðið vélvirkt annaðhvort með stimpli eða með bandi sem kreistir allt brjóstholið.“

 

Þar sem leiðbeiningar um endurlífgun eru í stöðugri þróun segir Felix nauðsynlegt fyrir fólk sem sótt hefur skyndihjálparnámskeið að uppfæra þekkingu sína reglulega. „Þá er mikilvægt að sem flestir fari á slík námskeið,“ segir hann og bendir bæði á Rauða krossinn og vefsíðuna www.endurlifgun.is þar sem hægt er að nálgast fjölmargar upplýsingar.

 

Fréttablaðið þriðjudaginn 24. janúar 2012

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *