Sáttmáli spítala og þjóðar

Mega Code Kelly
Ávarp Guðmundar Bjarnasonar formans Hjartaheilla á Vísindadegi LSH 2012

Góðir tilheyrendur. Það er mér sönn ánægja og heiður að fá að segja hér örfá orð, á þessum Vísindadegi Landspítalans 2012.

Tilefni þesMega Code Kellys er að Hjartaheill, landssamtök hjartasjúklinga, hafa ákveðið að gefa Landspítalanum, vísinda-, mennta- og nýsköpunarsviði, búnað til nota við kennslu og leiðbeiningar við endurlífgun.  Slíkur búnaður, sem eykur þekkingu og kunnáttu á endurlífgun, er ekki síst mikilvægur fyrir hjartasjúklinga eða þá sem fá hjartaáföll.  Þegar erindi Kristján Erlendssonar f.h. þessa sviðs spítalans var lagt fyrir stjórn Hjartaheilla var málinu strax vel tekið.  Nú er það svo að samtökin eru ekki mjög sterk fjárhagslega og talsvert leitað til þeirra eftir stuðningi við tækjakaup fyrir heilbrigðisstofnanir.  Því veltum við fyrir okkur hvernig við gætum leyst þetta mál.

 

Landssamtökin samanstanda af 10 landshlutafélögum svo og Neistanum, styrktarfélagi hjartveikra barna, og skiptast árgjöld félagsmanna til helminga milli þessara deilda og landssambandsins.  Stjórnin ákvað að leita til stjórna landshlutafélaganna og fá þau til að leggja málinu lið með því að gefa eftir, eða ráðstafa, sínum hluta árgjaldsins á s.l. ári til þessa verkefnis og reyndist það auðsótt mál.  Það eru því í raun félagsmenn í landshlutafélögunum sem eru að gefa Landspítalanum þessa gjöf.
 
Á þessu sést líka hversu mikilvægt það er að samtökin séu fjölmenn og sterk svo auðveldara sé að verða við og sinna einhverju af þeim beiðnum sem til okkar berast.  Ég vil því nota tækifærið og höfða til ykkar, starfsfólks heilbrigðiskerfisins, að aðstoða okkur við að efla samtökin til dáða með því að fjölga félagsmönnum.
 
Nú má ekki misskilja mig þannig að ég vilji eða sé að óska eftir því að sem flestir fái hjarta-áföll og félagsmönnum fjölgi með þeim hætti J – heldur biðjum við ykkur að hvetja þá sem orðið hafa fyrir áföllum og eða hafa þurft á þjónustu ykkar að halda, til að ganga í samtök okkar og leggja okkur lið.  Auk þess eru samtökin opinn öllum sem styðja vilja gott málefni, þó þeir hafi, – a.m.k. enn, – sloppið við hjartaáföll eða æðasjúkdóma, eins og sá sem hér stendur er dæmi um.
 
Á árinu 2008, á 25 ára afmæli Hjartaheilla, tóku samtökin virkan þátt í að safna fyrir og kaupa nýtt hjartaþræðingartæki fyrir Landspítalann.  Á næsta ári, 2013, eru Hjartaheill því 30 ára og er nú þegar hafin umræða um og undirbúningur að því hvað samtökin gætu látið gott af sér leiða á þeim tímamótum.  Hvort það verður aftur nýtt hjartaþræðingartæki, sem sannarleg mun orðin þörf fyrir, skal ósagt látið á þessari stundu, en vissulega væri það ánægjulegt og verðugt verkefni.
 
Auk þessara stærri viðfangsefna er Hjartaheill stöðugt að reyna að styðja við heilbrigðisstofnanir með smærri tækjakaupum, búnaði og jafnvel aðstoð við fræðslu og forvarnir eins og þessi gjöf í dag ber vitni um.  Á þessu ári hafa samtökin nú þegar veitt gjafir og stuðning fyrir u.þ. b.   3.4  millj. kr.
 
Það er vissulega umhugsunarefni að þessar mikilvægu stofnanir okkar, sem verða að vera vel tækjum búnar til að gegna sínu hlutverki svo sem til er ætlast, skuli ekki hafa meiri fjárráð til tækjakaupa en raun ber vitni.  Að þurfa að leita til lítilla félagasamtaka sem hafa takmörkuð fjárráð, til að geta keypt og endurnýjað nauðsynlegan tækjabúnað sem kostar örfá hundruð þúsunda króna er svo sannarleg áhyggjuefni en við skulum vona, og verðum að vona, að úr þessu rætist betur á næstu árum og þjóðfélag okkar rísi úr þessari lægð, þessari öskustó sem það nú er í, fyrr en seinna.  Og á meðan er það okkur, sem störfum að félagsmálum í þágu almennings, svo sannarlega ánægjuefni að geta lagt góðum málum lið þó í litlum mæli sé.
 
Mig langar að biðja Kristján Erlendsson, framkvæmdastjóra vísinda-, mennta- og nýsköpunarsviðs Landspítalans, að koma hér og veita viðtöku skjali til staðfestingar á umræddri gjöf !
 
Megi gifta og hamingja fylgja þessum tækjum ásamt hjartans óskum gefanda um að notkun tækjanna skili farsælum og blessunarríkum árangri.   

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *