
Laugardaginn 9. júní 2012, kl 09.00 mæting í Síðumúla 6, kl 9.30 lagt af stað í Borgarnes, 11.30 létt hádegisverðahlaðborð á Landnámssetrinu. Kl. 13.00
Landnámssafnið skoðað Í þessari skemmtilegu sýningu greinir frá því hvernig norrænir menn fóru að því að rata yfir opið haf, af hverju þeir yfirgáfu heimkynni sín og hvað beið fyrstu landnámsmannanna. Með nútíma tækni sjónvarps og leikhús er leitast við að gesturinn fái tilfinningu fyrir því hvernig það var að ganga á áður ónumið land.
Í landnámssýningunni er sagt frá mönnunum sem fyrstir stigu á land og hvernig Ísland var numið, fram til stofnunar Alþingis á Þingvöllum árið 930. Gesturinn fær leiðsögn í heyrnartólum og er þannig með leiðsögumanni leiddur inn í hljóð- og myndheim sögunnar. Að ganga í gegnum sýninguna tekur um 30 mín. Hljóðleiðsögnin er fáanleg á níu tungumálum, auk íslensku og barnarásar sem hentar börnum allt niður í 4-5 ára aldur.
Í landnámssýningunni er stuðst við nýjustu tækni í lýsingu og myndbandagerð auk þess sem þar er að finna fágætt líkan af Íslandsfari eftir Gunnar Marel Eggertsson. Áður hefur ekki verið unnið að því er við vitum svo nákvæm eftirlíking af farskipum víkinga. Í skipunum sjáum við líka agnar smáar manneskjur eftir Brian Pilkington, mótaðar í leir. Fólk sem er að leggja út í óvissuna, út á opið haf með litla sem enga hugmynd um hvað bíður þess handan sjóndeildarhringsins.
Grunnhugmynd að landnámssýningu á Kjartan Ragnarsson en yfirhönnuður er Axel Hallkell Jóhannesson. Axel Hallkell er bæði tónlistar- og myndlistarmaður og hefur starfað um árabil sem höfundur leikmynda og söngvari í hljómssveitinni Langi Seli og skuggarnir. Auk Kjartans og Axels unnu að þróun hugmynda Sigríður Margrét Guðmundsdóttir, Örnólfur Thorsson, íslenskufræðingur og Sigríður Sigþórsdóttir, arkitekt. Texta í hljóðleiðsögn skrifaði Guðmundur Andri Thorsson, lýsingu annaðist Ögmundur Jóhannesson og yfirsmíðin fór fram í Sviðsmyndum og þar voru margir sýningargripir unnir. Fjöldi lista- og hugvitsmanna til viðbótar kom að gerð sýningarinnar en sjón er sögu ríkari.
Kl 13 til 13.30 Farið yfir í Safnahúsið og sýningin Börn í 100 ár – saga Íslands á 20. öld
Árið 1908 var fyrst stofnaður barnaskóli í Borgarfirði, þar sem nú er Grunnskólinn í Borgarnesi. Á afmælisárinu 2008 var opnuð í Borgarnesi sýning um líf barna á Íslandi árunum 1908 til 2008.
Á sýningunni er lögð áhersla á ljósmyndir og þær settar í skemmtilegt samhengi við muni liðins tíma. Þannig má sjá sögu þjóðarinnar á 20. öld út frá sjónarhóli og umhverfi barna á þessum tíma.
Sýningin er þannig sett upp að það er eins og gestir gangi inn í risavaxið myndaalbúm, þar sem hægt er að opna veggina eins og jóladagatal.
Meðfylgjandi ljósmynd er af stúlku (Maríu Hildi Maack) í íslenskri sveit snemma á 7. áratug síðustu aldar og er þetta einkennismynd sýningarinnar. Birt með góðfúslegu leyfi ljósmyndara, Rafns Hafnfjörð.
kl 15.30 Kaffi, skonsa og kaka.
kl 17.00 lagt af stað til Reykjavíkur
kl 19.00 áætlaður komutími í Síðumúlann.
Verð:
Hjartaheill og Heilaheill greiða niður hluta svo hluti félagsmanns er 5000 kr. með öllu inniföldu þ.e.a.s rúta, létt hádegisverðarhlaðborð, Landnámssafn, Safnhúsið-sýningin Börn í 100 ár. Kaffi og með því.
Félagsmenn greiða við brottför.
Skráning á vef Heilaheilla og hjá Dagmar í síma 564 1518 / 690 4806 eða hjá Hjartaheill í síma 552 5744.
Skráningarfrestur er til og með 4. júní 2012.