Pokasjóður úthlutar 71 milljón

Pokasjóður úthlutar 2012

Pokasjóður úthlutar 2012Pokasjóður úthlutaði í dag 71 milljón króna í 82 verkefni við hátíðlega athöfn í Salnum í Kópavogi. Lögð var áhersla á að styrkja verkefni á sviði umhverfismála, menningar, mannúðar, íþrótta og útivistar um allt land.

 

Stuðningur við verkefni fyrir börn og unglinga er áberandi að þessu sinni, en samtals er 20 milljónum króna úthlutað til fjölbreyttra úrræða  á því sviði. Styrkir til umhverfismála nema tæpum 38 milljónum króna. Frá upphafi hefur Pokasjóður úthlutað um 1.300 milljónum króna, segir í fréttatilkynningu frá sjóðnum.

 

Hæstu styrkir Pokasjóðs í ár námu fimm milljónum króna og voru þeir tveir að þessu sinni. Landgræðslufélag Biskupstungna fékk slíkan styrk til uppgræðslu og stöðvunar jarðvegseyðingar á Haukadalsheiði. Einnig fékk Þorgrímur Þráinsson fimm milljóna styrk fyrir verkefni í mannrækt fyrir nemendur í 10. bekk grunnskóla 2012-2013.

 

Olweus-áætlunin, eineltisáætlun fyrir grunnskóla og leikskóla, og Vímulaus æska, sjálfsstyrkingarnámskeið fyrir börn og unglinga, fengu hvor um sig þriggja milljóna króna styrk.

 

Skógræktarfélag Reykjavíkur fékk styrk að upphæð tvær og hálf milljón fyrir göngustígagerð í Esjuhlíðum. Þá fengu Lundur forvarnafélag, Reykjanesbæ, Húsgull, Húsavík, vegna uppgræðslu á Hólasandi á Hólsfjöllum, Íþróttasamband fatlaðra, Reykjavík fyrir sumarbúðir fatlaðra á Laugarvatni, SÁÁ, Reykjavík, fyrir forvarnarverkefni fyrir börn alkóhólista í uppbyggingu á vefsvæði, Útilífsmiðstöð skáta, Úlfljótsvatni, fyrir umhverfisendurbætur, flotbryggju, varnargarða og tjaldstæðaveg og einnig  Vinir Þórsmerkur, Hvolsvelli, vegna viðhalds stíga í Þórsmörk og gerð brúar yfir Hrunaá í Goðalandi styrk að upphæð tvær milljónir hvert.

 

Að Pokasjóði standa 160 verslanir um land allt, matvöruverslanir, vínbúðir og sérvöruverslanir. Pokasjóður fær tekjur sínar af sölu plastburðarpoka í þessum verslunum. Formaður stjórnar Pokasjóðs er Bjarni Finnsson.

 

Hér að neðan má sjá lista yfir alla þá sem fengu styrk í ár frá Pokasjóði.

 

PDF-skrá Úthlutun Pokasjóðs 5. júní 2012

Hjartaheill hlaut 1 milljón króna og færir stjórn Hjartaheilla Pokasjóði hjartans þakkir fyrir stuðninginn.

MBL þriðjudaginn 5. júní 2012

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *