Jóhannes Haraldur Proppé minningarorð

Jóhannes Haraldur Proppé

Jóhannes Haraldur ProppéJóhannes Proppé var einn af forystumönnum í sveit hjartasjúklinga til margra ára. Hann sat í stjórn Landssamtaka hjartasjúklinga frá stofnun félagsins árið 1983 til ársins 2002 er hann lét af störfum vegna aldurs, alla tíð sem gjaldkeri samtakanna í 19 ár. Jóhannes var ávallt tilbúin að leggja samtökunum lið s.s. með því að sækja fundi og taka þátt í ýmsum verkefnum sem til hans var leitað með.

 

Fyrir samtökin var ómetanlegt að fá mann eins og Jóhannes til liðs við sig og hin mikla reynsla hans á sviði félagsmála komu sér afar vel auk þess sem eftir var tekið þegar hann tók til máls.

 

Jóhannes var mikill baráttumaður og lagði sig allan fram um að ná góðum árangri í öllum þeim málum sem hann tók að sér. Það var sérlega gott að leita til Jóhannesar eins og þegar hugmyndin um nafnið Hjartaheill kom til umræðu innan samtakanna þá var hann alveg samþykkur þeirri breytingu.

 

Hjartaheill, landssamtök hjartasjúklinga þakka Jóhannesi öll hans störf í þágu samtakanna og senda eiginkonu hans, Unni Guðmundsdóttur Proppé og öðrum aðstandendum innilegar  samúðarkveðjur.

 

Þar sem englarnir syngja sefur þú
sefur í djúpinu væra.
Við hin sem lifum, lifum í trú
að ljósið bjarta skæra
veki þig með sól að morgni
veki þig með sól að morgni.
        (Bubbi Morthens)

 

Guðmundur Bjarnason, formaður
Ásgeir Þór Árnason, framkvæmdastjóri

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *