Launahækkunin röng forgangsröðun

Hjúkrunarfræðingar á þönum. Mbl.is/Árni Sæberg

Hjúkrunarfræðingar á þönum. Mbl.is/Árni Sæberg„Við erum með götótt vökvasett og bitlausar nálar. Það er ekki gott að vinna við þessar aðstæður. Við erum farin að spara of mikið á stundum og það bitnar á sjúklingunum,“ segir Bylgja Kærnested, hjúkrunardeildarforstjóri á hjartadeild Landspítalans.

 

Starfsfólk Landspítala hefur sætt sig við stóraukið álag undanfarin ár án þess að laun hafi hækkað í samræmi við það. Hjartadeildin er eitt dæmi, en stuttu fyrir kreppu voru tvær hjartadeildir á Hringbraut sameinaðar í eina og sjúkrarúmum fækkað um 10 niður í 32. Fyrir vikið þarf að nýta hvert pláss til hins ýtrasta og sjúklingar stoppa stutt við.

Sjúklingar útskrifaðir of snemma

Bylgja Kærnested er hjúkrunarforstjóri á hjartadeild Landspítalans. mbl.is

Bylgja Kærnested er hjúkrunarforstjóri á hjartadeild Landspítalans. mbl.is

„Við förum yfir útskriftir á hverjum einasta degi og erum oft og tíðum að mér finnst að útskrifa fólk of snemma. Um leið og fólk fer heim þá er nýr sjúklingur kominn í rúmið, það eru nánast aldrei laus rúm á hjartadeildinni,“ segir Bylgja. Hjartadeild Landspítalans er sú eina á landinu og þangað koma því fárveikir hjartasjúklingar alls staðar að af landinu og liggja flestir í tvíbýli, en sumir í fjórbýli.

 

Starfsfólki hefur einnig verið fækkað á vöktunum síðan deildirnar sameinuðust, en um leið fjölgar sífellt mjög veikum sjúklingum að sögn Bylgju. Ef einhver veikist á dagvinnutíma er ekki kallaður út aukastarfsmaður. „Þá hleypur starfsfólkið bara hraðar. Ég segi að við séum með viðunandi mönnun, en ég má ekki fækka fólki neitt því þá er ég strax komin undir öryggismörkin. Það getur verið hættulegt. Ég hefði viljað hafa fleira fólk á vöktunum.“

 

Starfsmenn rýna í hverja krónu

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags hjúkrunarfræðinga, sagði við mbl.is í vikunni að allt starfsfólk Landspítala, ekki bara forstjórinn, hefði lagt sig fram við að veita góða þjónustu samhliða niðurskurði. Mörgum þætti því ósanngjarnt að forstjóranum einum væri umbunað. Aðspurð segir Bylgja að starfsfólk hjartadeildar sé stöðugt vakandi fyrir hagræðingu.

 

Hjúkrunarfræðingar á Landspítalanum hittust á tveimur fjölmennum fundum í vikunni til að ræða óánægju sína með stöðu mála. Mbl.is/Árni Sæberg„Við höfum haldið sparnaðarfundi og ég hef leitað til starfsmanna varðandi hugmyndir um sparnað. Við spörum til dæmis lín við sjúklinga og verðmerkjum alla hluti, alveg niður í minnstu sprautur. Við gefum sjúklingum auðvitað öll þau lyf sem þeir þurfa, en notum bara það allra nauðsynlegasta. Það er engin sóun í gangi og horft í hverja einustu krónu.“

 

Þjónustan við sjúklinga skerðist

Í vor var göngudeild kransæðasjúklinga á Landspítalanum lokað til að spara eitt stöðugildi hjúkrunarfræðings. „Af því að við erum að útskrifa fólk svo rosalega snemma þá vísuðum við mörgum á göngudeildina, en svo höfðum við ekki efni á að reka hana á Landspítalanum þannig að við erum að skerða þjónustu við sjúklinga. Landspítalinn hefur lagt áherslu á að efla göngudeildir en þrátt fyrir það varð að loka þessari deild. Það bitnaði verulega á hjartasjúklingum og okkur þykir það miður. Við sinnum allri bráðastarfsemi eins og við mögulega getum, en það er ýmislegt annað sem búið er að plokka af, og sjúklingar finna fyrir því,“ segir Bylgja.

 

Ein hliðin enn snýr svo að tækjabúnaðinum. Hjartadeild hefur afar lítið fjármagn frá Landspítalanum til endurnýjunar á tækjabúnaði og hefur því reitt sig á velunnara, eins og Hjartaheill – landssamtök hjartasjúklinga. „Við erum þeim auðvitað ótrúlega þakklát, og við höfum lengi þurft að sætta okkur við tækjabúnað sem uppfyllir ekki ströngustu kröfur. Það veldur starfsfólki álagi, því það er stöðugt verið að færa fólk til þannig að þeir veikustu fái besta tækjabúnaðinn.

 

Óréttlæti og röng forgangsröðun

Þessi starfsaðstaða er ekki til sóma fyrir hjúkrunarfræðinga og aðra starfsmenn að mati Bylgju, en það sem meira er þá bitnar hún á sjúklingum. „Fólk er alveg til í að hagræða og fara vel með þá fjármuni sem við höfum, en núna finnst mér að fólk hugsi með sér: „Jæja, ég er að spara alla daga á meðan það er til peningur fyrir einhverju öðru, eins og þessu.“ Og fólki finnst það ekki vera réttlátt.“

 

Fram hefur komið á tveimur fjölmennum fundum hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum að launahækkun forstjórans Björns Zoëga um 20%, upp í 2,3 milljónir króna, hafi verið kornið sem fyllti mælinn, á meðan skorið sé niður á öllum öðrum vígstöðvum.

 

Bylgja segir að þetta snúist ekki um forstjórann sem slíkan. „Þetta snýst um forgangsröðun, og hún verður alltaf að vera út frá sjúklingnum. Hvað er best fyrir sjúklinginn. Hjúkrunarfræðingum finnst þessi launahækkun ekki vera best fyrir sjúklinginn.“

 

MBL.is laugardaginn 15. september 2012

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *