Hvernig hjörtu kvenna hafa mætt lífsstíl nútímans

Valgerður Hermannsdóttir hjúkrunar og lýðheilsufræðingur
Valgerður Hermannsdóttir hjúkrunar og lýðheilsufræðingurKonur!  Hvað vitið þið um hjartasjúkdóma?
Hjartasjúkdómur, eða kransæðasjúkdómur, hefur verið algengasta dánarorsök kvenna frá árinu 2001, en kemur nú næst á eftir krabbameini. Auk þess að vera algengasta ástæða skyndidauða fólks á öllum aldri, skerðir kransæðasjúkdómur lífsgæði og veldur ótímabærri örorku.
Fram undir miðja tuttugust öld var sjúkdómurinn svo til óþekktur hjá konum, en frá árinu 1950 fór að bera á honum, og jókst tíðni hans meðal kvenna nokkuð hratt. Hann herjaði því ekki eingöngu á karlmenn eins og lengi hafði verið haldið fram.

Hversvegna eru konur í áhættu fyrir kransæðasjúkdóm?
Áratuga rannsóknir hafa sýnt fram á hvernig sumir þættir í líkama okkar og lífsvenjum auka hættu á hjartasjúkdómum umfram aðra. Á suma þeirra er hægt að hafa veruleg áhrif og minnka hættuna sem af þeim stafar. Þeir eru helstir: reykingar, hreyfingarleysi, offita, hátt kólesteról og hár blóðþrýstingur. Eins eru erfðir áhættuþáttur en ekki er  hægt að hafa áhrif þær. Æðakölkunin sem veldur þrengslum og stíflum í æðum, meðal annars í kransæðunum, leiðir til blóðþurrðar og er verkurinn sem fylgir í kjölfarið hróp frá hjartavefnum um skort á blóði. Konur hafa þó sérstöðu hvað snertir æðakölkun, því á meðan þær er á barnseignaraldri dregur kvenhormónið estrogen, sem þá er virkt, úr hættu á æðakölkun. Það er því ekki fyrr en um það bil sex til tíu árum eftir tíðahvörf, þegar áhrif estrógens í líkamanum minnka, að kransæðasjúkdómur kemur sterkt fram hjá konum. Dánartíðni kvenna er þá jafn há og hjá körlum á sama aldri.
Hvernig konur lýsa hjartaverk á annan hátt en karlar
Í dag er vel þekkt að konur gera sér ekki grein fyrir eigin áhættu. Lýsingar konu á upplifun af kransæðastíflu eru ekki í öllum tilvikum sambærilegar við lýsingar karla á sama sjúkdómi. Þessari staðreynd er nauðsynlegt að fá alla, og þá sérstaklega konur, til að velta fyrir sér. Nauðsynlegt er að þekkja einkennin og hvernig bregðast á við þeim, en einnig á hvaða hátt konur eru líklegri til að upplifa þau, þ.e. sem:
•Óútskýrðan slappleika eða þreytu
•Óeðlilegt kvíðakast eða taugaóstyrk
•Meltingartruflanir eða verk vegna uppþembu

Bæði konur og karlar upplifa eftirfarandi einkenni hjartaáfalls:
•Þyngsl eða verk fyrir brjósti eða fyrir neðan bringubein
•Óþægindi eða verk milli herðablaða, í hálsi, kjálka eða maga
•Verk sem kemur við áreynslu og hverfur við hvíld og getur verið fyrirboði kransæðastíflu
•Stöðugan verk fyrir brjósti etv. með ógleði og kaldsvita sem getur verið einkenni um bráðakransæðastíflu og krefst tafarlausrar meðferðar
Það hefur sýnt sig að konur taka almennt vel við ábendingum og alla jafna takast þær á við þá  áhættuþætti sem hægt er að hafa áhrif á. Þær eru duglegar að breyta matarræði hjá sér og auka hreyfingu. Reykingar eru þó sterkasti áhættuþátturinn og nokkrar rannsóknir sýna að konur eigi erfiðara en karlar með að hætta að reykja.
Þó er ánægjulegt að sjá að samkvæmt tölum Lýðheilsustofnunar frá árinu 2011 hefur konum nú gengið vel að hætta að reykja og hlutfallsleg tala þeirra kvenna sem nú reykja daglega er 15%. Hér er um að ræða konur á aldrinum 15-89 ára. 

Ekki hika við að leita aðstoðar
Það verður seint lögð nægilega mikil áhersla á mikilvægi þess að mæta fljótt til greiningar og meðferðar kransæðasjúkdóms. Sé minnsti grunur um kransæðastíflu þarf að bregðast skjótt við og leita læknis innan tveggja klukkustunda svo hægt sé að forða hjartavef frá varanlegum skemmdum. Möguleikinn á að hjartað starfi eðlilega og hættan á hjartabilun, eða öðrum hjartasjúkdómum í kjölfar kransæðastíflu, er því mun minni ef brugðist er fljótt við.
Vitundarvakningu hefur verið hrundið af stað í mörgum löndum, bæði innan Evrópu og Ameríku, um að tekið sé tillit til kvenna við gerð heilbrigðisáætlana sem tengjast hjarta– og æðasjúkdómum. Hér á landi hafa GoRed samtökin hafið átak til að kynna fyrir konum áhættuna á hjarta og æðasjúkdómum. Í þessu átaki hefur GoRed lagt áherslu á að leita allra leiða til að bæta forvarnir og efla heilbrigði kvenna. Í dag er mikið  rætt um tengsl og áhrif foreldra á börn. Oft erfast hjartasjúkdómar og lífsstílssjúkdómar geta fylgt börnum okkar. Því er mikilvægt að við gerum okkur far um að breyta rétt og vera sterk fyrirmynd fyrir börn okkar og önnur ungmenni. Fylgjumst með kynningu GoRed á næstu dögum og fræðumst um konur og hjartasjúkdóma.

Valgerður Hermannsdóttir, hjúkrunar og lýðheilsufræðingur, situr í stjórn Hjartaheilla

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *