Löng bið eftir tíma hjá heimilislæknum

Beðið eftir mælingu um helgina. mbl.is/Kristinn

Beðið eftir mælingu um helgina. mbl.is/Kristinn„Við heyrðum mjög mikið af því að fólk væri að bíða í 10-15 daga eftir að komast að hjá sínum heimilislækni,“ segir Ásgeir Þór Árnason, framkvæmdastjóri Hjartaheilla. Yfir 700 manns mættu í ókeypis mælingu á blóðþrýstingi, blóðsykri, blóðfitu og súrefnismettun á vegum Hjartaheilla og SÍBS um helgina.

Fjölda fólks var ráðlagt að panta sér strax tíma hjá lækni eftir mælinguna. Að sögn Ásgeirs var aðalástæðan fyrir því sú að blóðfitan og blóðþrýstingurinn voru mjög há. Talaði fólk um að það væri ekki hlaupið að því að komast skjótt að hjá sínum heimilislækni. „Það sem maður hefur áhyggjur af er grunnþjónustan, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu heldur um allt land,“ segir Ásgeir. „Það sem kannski gerir það einnig að verkum að hér er fullt út úr dyrum er að við erum að bjóða upp á þetta ókeypis. Fólk var tilbúið til að bíða eftir mælingunni í á þriðja tíma og það tóku allir biðinni með jafnaðargeði.“

Samkvæmt upplýsingum frá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu vantar a.m.k. 30 heimilislækna til starfa á heilsugæslustöðvarnar.

Tugir komust ekki að í mælingu Hjartaheilla og SÍBS en búist er við að boðið verði upp á aðra ókeypis mælingu í haust. Mbl.is mánudaginn 27. maí 2013

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *