Hjartaheill 30 ára

Guðmundur Bjarnason formaður Hjartaheilla
Málþing í tilefni 30 ára afmælis Hjartaheilla haldið í Hringssal LSH þann 8. október 2013
Guðmundur Bjarnason formaður HjartaheillaÁgætu málþingsgestir.
Ég vil fyrst af öllu fá að þakka forsvarsfólki hér á Landspítalanum fyrir það að standa fyrir þessu málþingi eða fræðslufundi um hjartalækningar, hjartaþræðingar og annað það er varðar málefni þau sem samtökin Hjartaheill eru einkum að fást við, fjalla um og beita sér fyrir.  –  Og það í öllu því umróti og erfiðu viðfangsefnum sem stjórnendur og starfsfólk Landspítalans þarf að fást við um þessar mundir.

Við Hjartaheilla-fólk ætluðum ekki að hafa mikið tilstand í tilefni 30 ára afmælis samtakanna en beita kröftum okkar fremur að einhverjum þörfum verkefnum af þessu tilefni, svo sem samtökin hafa gert mörgum sinnum á þessu þrjátíu ára tímabili.  

Það var um mitt ár 1982 sem upp kom hugmynd hjá hópi fólks sem glímdi við hjartasjúkdóma að mynda félagsskap sem hefði það hlutverk að gæta hagsmuna hjartasjúklinga og beita sér fyrir forvarnarstarfi og fræðslu um hjartasjúkdóma.  Voru það ekki síst einstaklingar sem farið höfðu utan í hjartaskurðaðgerðir, sem leiddu þennan hóp og höfðu mikinn áhuga á að beita sér fyrir því að hægt yrði að framkvæma slíkar aðgerðir hér á landi.  Stofnaður var undirbúningshópur til að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd.  Það var svo þann 8. október 1983 að haldinn var stofnfundur Landssamtaka hjartasjúklinga og mættu á þann fund 230 stofnfélagar.  

Landssamtök hjartasjúklinga eða Hjartaheill, eins og samtökin heita í dag, eiga því 30 ára afmæli í dag, 8. október 2013. Félagsmenn eru nú um 3.300 og munu Hjataheill vera með fjölmennustu samtökum sem stundum eru kölluð „sjúklingasamtök“ þó vissulega séu félagsmenn fleiri en þeir sem fengið hafa hjarta- eða æðasjúkdóma.  

Margt hefur gerst á þessum 30 árum sem liðið hafa frá stofnfundinum og má fullyrða að samtökin hafi sannað gildi sitt og hlutverk og átt þátt í margvíslegum verkefnum til hagsbóta fyrir hjartasjúklinga og til eflingar heilbrigðisþjónustunni í landinu.  Og með þetta að leiðarljósi lögðu samtökin mikla áherslu á það í upphafi að bæta tækjabúnað Landspítalans og að hér störfuðu læknar og annað vel þjálfað heilbrigðisstarfsfólk svo hægt væri að framkvæma opnar hjartaskurðaðgerðir hér heima í stað þess að þurfa að senda alla þá sem á slíkum aðgerðum þyrftu að halda til útlanda með ærnum tilkostnaði, fyrirhöfn og áhyggjum fyrir sjúklinga, aðstandendur og þjóðfélagið allt.  Þessi nýstofnuðu samtök beittu sér því fyrir fjársöfnun til tækjakaupa og telja sig hafa átt stóran þátt í því að fyrsta opna hjartaaðgerðin var gerð hér á landi þann 14. júní 1986 eða aðeins tæpum þremur árum eftir stofnun þeirra.  
Í stuttu ávarpi er ekki hægt að rekja eða nefna öll þau fjölmörgu verkefni sem samtökin hafa beitt sér fyrir, eða tekið þátt í, til að styrkja heilbrigðisþjónustuna í landinu og þau fjölmörgu fræðslu- og forvarnarverkefni sem þau hafa beitt sér fyrir.  Alla tíð, í þrjátíu ára sögu samtakanna, hafa þau átt stóran þátt í að bæta tækjabúnað á heilbrigðisstofnunum víða um land en ekki síst á Landspítalanum.  Strax á fyrsta starfsári áttu samtökin þátt í að keypt var nýtt hjartaþræðingartæki. Margoft síðan hafa þau lagt lið við kaup á nýjum tækjum fyrir LSH, síðast árið 2008, á 25 ára afmæli samtakanna, er þau beittu sér fyrir landssöfnun til að styrkja slík tækjakaup.  Og enn á þessu þrítugasta afmælisári beita Hjartaheill sér fyrir víðtæku söfnunarátaki til kaupa á nýju hjartaþræðingartæki.  Ekki þarf að segja þeim sem hér eru samankomin að slíkur hátæknibúnaður úreldist fljótt og er ótrúlegt að nú þegar skuli nýjasta tækið orðið 5 ára gamalt og þau eldri komin langt fram yfir áætlaðan endingartíma sem talinn er vera 7 – 8 ár, – þannig að það er sannarlega orðin brýn þörf fyrir nýtt tæki.  

Á þrjátíu árum hafa samtökin lagt samtals um 200 milljónir króna, á föstu verðlagi, til tækjakaupa fyrir heilbrigðisþjónustuna í landinu.  Og eru þá líklega ótalin einhver framlög og tækjagjafir á vegum einstakra landshlutafélaga Hjartaheilla.  Framreiknuð til verðlags í dag mun sú upphæð nú vera a.m.k. helmingi hærri eða um 400 milljónir króna, e.t.v. nær ½ milljarði, og það munar sannarlega um minna.  

Ég mun í lok þessa málþings gera nánari grein fyrir söfnunarátaki samtakanna og hver staða þess er nú, – en átaki þessu er langt í frá lokið og vænti ég þess að þjóðin muni enn einu sinni sameina krafta sína til að bæta tækjabúnað og aðstöðu Landspítalans og heilbrigðisþjónustunnar í landinu.  

Hafi einhvern tíma verið þörf, – er nú nauðsyn !

Ég færi aftur mínar bestu þakkir til þeirra sem staðið hafa yfir málþingi þessu og gert okkur Hjartaheilla-fólki fært að minnast 30 ára afmælis samtakanna með þessum málefnalega hætti.

Guðmundur Bjarnason, formaður stjórnar Hjartaheilla.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *