

Gengið var frá Reykjalundi að höfuðstöðvum Hjartaheilla í Síðumúla 6 og áfram að Landspítala við Hringbraut. Þetta var táknræn ganga og leiðin valin til að undirstrika það að allir hjartasjúklingar sem fara í stærri hjartaaðgerðir á Landspítala þurfa á endurhæfingu að halda eftir aðgerð og fara flestir á Reykjalund. Síðan taka margir þeirra þátt í starfsemi Hjartaheilla.
Gangan hófst stundvíslega klukkan 09:00 við aðalinngang Reykjalundar. Gengið var meðfram ströndinni að nýju brúnum yfir Elliðaárvoginn og þaðan upp í Síðumúla að höfuðstöðvum Hjartaheilla. Síðan niður á Sæbrautina og vestur að Eiðismýri og til baka eftir Ægissíðunni, um Njarðargötu og loks að aðalinngangi Landspítalans við Hringbraut en þangað kom glaður hópur hjartasjúklinga og aðstandenda þeirra kl. 16:00 eftir 7 klukkustunda göngu. Þar tók Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir hjartalæknir á LSH og stjórnarmaður í Hjartaheillum, á móti hópnum. Um 10 félagsmenn gengu alla leiðina, 30 km., 26 luku göngunni og fleiri gengu hluta leiðarinnar. Öllum þátttakendum eru hér með færðar hjartans þakkir fyrir stuðninginn.