Samtök hjartveikra tóku þátt

Guðmundur Bjarnason

Guðmundur BjarnasonHjartaheill, landssamtök hjartasjúklinga, og Neistinn, styrktarfélag hjartveikra barna, stóðu í fyrra fyrir landssöfnun undir nafninu Styrkjum hjartaþræðina vegna kaupa á hjartaþræðingartækinu og söfnuðu til þess 15 milljónum. Að auki fékkst styrkur frá tveimur Lionsklúbbum og var framlag samtakanna tvennra til tækjakaupanna alls 17 milljónir.

Þetta er í þriðja skiptið sem Hjartaheill tekur þátt í að kaupa nýtt þræðingartæki fyrir Landspítalann, segir Guðmundur Bjarnason formaður Hjartaheilla, en að auki hafa samtökin gefið spítalanum ýmsar smærri gjafir og styrki.

 

Gömul tæki áhyggjuefni
Hann segir söfnunina núna hafa verið nokkuð minna áberandi en fyrri safnanir samtakanna. Það kostar peninga að safna peningum, t.d. með því að auglýsa og láta vita af sér á annan hátt. Við ákváðum því núna að hafa þann háttinn á að senda 1.000 kr valgreiðslu inn í heimabanka hjá einum íbúa á öllum heimilum landsins og var fólki að sjálfsögðu í sjálfsvald sett hvort það greiddi hana. Við erum ákaflega þakklát þeim sem sáu sér það fært og sumir lögðu til viðbótar tugi og jafnvel hundruð þúsunda. Með því tókst okkur að standa við okkar fyrirheit í söfnuninni. Einnig var hægt að hringja í söfnunarsíma og þannig safnaðist talsvert.

Guðmundur segir gamlan tækjabúnað hjartadeildar Landspítalans hafa verið áhyggjuefni samtakanna um skeið. Það er talið að endingartími svona tækja sé 7-8 ár, en tækið sem nú er verið að leggja af var notað í tvöfalt lengri tíma. Tækin hafa bilað og biðlistarnir hafa því lengst. En við vonum að með nýjum búnaði takist að stytta biðlistana.

Núna er þetta orðið að veruleika og við erum auðvitað ákaflega stolt af því að vera þátttakendur í því að leggja þessu brýna málefni lið.

 

Morgunblaðið föstudaginn 21. mars 2014

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *